Páll Óskar og Magnús Stefánsson fá viðurkenningu fyrir jákvæð skilaboð

Skóli og frístund

""

Páll Óskar Hjálmtýsson og Magnús Stefánsson fengu í dag viðurkenningu fyrir jákvæð skilaboð til samfélagsins, en þeir gerðu saman myndina Þolendur og gerendur sem fjallar um einelti og leiðir til að uppræta það. 

Menntamálaráðuneytið og Reykjavíkurborg stóðu saman að hátíðardagskrá í Laugalækjarskóla á degi gegn einelti þar sem þessi viðurkenning var veitt. Á samkomunni voru m.a. sýnd myndbönd eftir nemendur í Laugalækjarskóla og Háaleitisskóla sem gerð voru í tilefni dagsins en þau verða notuð í skólum í umræðum um hvað sé einelti og hvernig megi bregðast við því.  

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri setti athöfnina og þakkaði reykvískum grunnskólanemendum fyrir sinn stóra hlut í þessum mikilvæga degi en minnti jafnframt á að vinna þyrfti gegn einelti alla daga ársins. Hann sagði það hafa verið forréttindi að fá að kynnast forvarnarstarfi gegn einelti í grunnskólum borgarinnar en borgarstjóri fór í þrjá skóla í dag, m.a. í Hólabrekkuskóla þar sem hann tók við samfélagssáttmála um vinsamlegt samfélag.  

Illugi Gunnarsson mennta- og menningamálaráðherra afhenti Magnúsi Stefánssyni viðurkenningu fyrir jákvæð skilaboð til samfélags sem hann tók við fyrir sína hönd og Páls Óskars Hjálmtýssonar en þeir tveir gerðu saman myndina Þolendur og gerendur sem verið er að sýna um þessar mundir í grunnskólum um allt land. Í myndinni er m.a. er komið inn á að þeir sem leggja í einelti þurfi líka aðstoð. Við athöfnina tók Ellen Kristjánsdóttir lagið og Vigdís Jakobsdóttir aðjúnkt við Listaháskóla Íslands flutti erindi undir fyrirsögninni Tár, bros og stundarskráin þar sem hún lagði áherslu á að umræður um tilfinningar mættu fá meira pláss í daglegu skólastarfi. 

Margir skólar í borginni nýttu daginn í dag til að hugleiða hvernig megi stuðla að jákvæðara samfélagi fyrir alla og uppræta það þjóðarböl sem einelti er. Myndböndin sem unnin voru af nemendum í Laugalækjarskóla og Háaleitisskóla eru öll einnar mínútu löng og voru víða notuð sem kveikja að umræðum um einelti. 

Vinir: http://vimeo.com/109825383

Bláa húfan: http://vimeo.com/109822389

Leikur: http://vimeo.com/109823071

Orðlaus samskipti: http://vimeo.com/109821218