Nýrri Hverfisgötu fagnað á laugardag

Umhverfi Skipulagsmál

""

Verkáfanga í endurnýjun Hverfisgötu verður fagnað á laugardag með gleðidagskrá sem hefst kl. 14:00 en þá fer skrúðganga með lúðraþyt og sirkusfólki um þann hluta Hverfisgötunnar sem hefur verið endurnýjaður. Allir  eru velkomnir. 

Stutt dagskrá verður síðan við Bíó Paradís þar sem borgarstjóri, Jón Gnarr, mun opna götuna formlega og boðið verður upp á veitingar frá Austur Indíafélaginu. Hinn eini sanni Laddi mun leiða viðstadda í allan sannleikann um Hverfisgötu og búast má við að einhverjir bresti í söng og almenna gleði í tilefni dagsins.

Í Bíó Paradís verða sýndar Reykjavíkurræmur, s.s. 101 Reykjavík, Sódóma Reykjavík, Rokk í Reykjavík, Rotterdam Reykjavík. Ókeypis er inn á þessar sýningar í tilefni dagsins og hefjast fyrstu sýningar kl. 15:30.   Langur laugardagur er á Hverfisgötu eins og annars staðar í miðborginni og mikið um að vera.

Á Hverfisgötu frá Klapparstíg upp fyrir Vitastíg hefur allt yfirborð götu og gangstétta verið endurnýjað, ásamt lögnum sem komnar voru á tíma. Malbikaðar hjólareinar eru  beggja vegna götu og snjóbræðsla var sett í þær, sem og undir gangstéttar og gatnamót, sem eru steinlögð og upphækkuð.

Hverfisgata klukkan tvö á laugardag

Dagskrá opnunarhátíðar Hverfisgötu:

kl. 14:00  Skrúðganga frá Bíó Paradís - gengið að Frakkastíg, þaðan að Klapparstíg og endað við Bíó Paradís -

  • Sirkusfólk ekur um hjólastíga á freistandi Lukku-hjóli sem hægt er að festa á eigin miða!
  • Lúðrasveit Samma "fönkar" upp karnival-stemninguna
  • Tilvalið  að hita upp Öskudags-grímubúningana með þátttöku í skrúðgöngunni

kl. 14:15 Hátíðarræða - sungin og leikin: Eiríkur Fjalar

kl. 14:25  Fjöldasöngur gesta með Lúðraveit Samma

kl. 14:30 Jón Gnarr : Opnunarávarp

kl. 14:30   Dregið úr potti Lukku-hjólsins. Dagur Eggertsson dregur úr og afhendir vegleg verðlaun

kl. 14:40  Óður til Hverfisgötu. Þjóðþekkt miðborgarrotta flytur frumsaminn brag

kl. 14:45  Lúðraveit Samma blæs til leiks

kl. 15:00  Fornbílaakstur gleður augu og eyru

kl. 15:10 Plötusnúðarnir Taj Mahal & Abdullah RAJ hræra saman indverskri Bhangra tónlist og íslenskum þjóðstefjum

kl. 15:30 - 19:00  Reykjavíkurmyndahátíð Bíó Paradísar: 101 Reykjavík, Rokk í Reykjavík,  Reykjavík - Rotterdam, Sódóma Reykjavík  sjá nánar á www.bioparadis.is