Torg í biðstöðu verðlaunuð
Hönnunarmars hefst um miðjan mars (14. - 17. mars nk.) og að því tilefni veitti tímaritið Reykjavík Grapevine hönnunarverðlaun fyrir árið 2013.
Torg í biðstöðu vann í hópi verkefna ársins. Það er á vegum Reykjavíkurborgar og snýst um að hleypa með tímabundnum lausnum nýju lífi í svokölluð biðsvæði. Það eru svæði sem óvissa ríkir um varðandi framtíðarnotkun og möguleika. Biðsvæðum hefur síðastliðin tvö sumur verið úthlutað til hópa og einstaklinga sem hafa gert tilraunir með þau í borgarrýminu.
Endurhönnun torganna og mannlíf sem því fylgir hefur sýnt að breyta má borgarmyndinni til hins betra. Það vekur eftirtekt að unnið er hratt með að breyta torgunum og áhersla er á athöfnina, þ.e. lifandi torg. Markmiðið er að gæða borgina auknu lífi og auðga mannlíf og skapa hreyfingu á torgum. Auk framkvæmdar ársins voru verðlaunuð vara, vörulína og hönnuður ársins.
Torg í biðstöðu voru víða um borgina síðasta sumar og hlutverk þeirra ólík eins ogsjá má á eftirfarandi lista;
Káratorg
Teymi: Endur-skoðendur borgarinnar.
Grunnhugmyndin er sótt í andrúmsloft Kaffismiðjunnar sem varpað er út á torgið. Heimilisleg stemmning og frjálslegt viðmót er einkennandi fyrir staðinn sem er vel sóttur af íbúum hverfisins og öðrum. Strigapokar undan kaffibaunum eru notaðir sem sæti fyrir gesti og gangandi.
Óðinstorg
Teymi: Kristrún Heiða og Sari Peltonen.
Óðinstorg er endurhugsað sem fjölskylduvænt, grænt og fjölnota svæði. Vegglistaverk af góðlátlegum skrímslum spila stórt hlutverk í nýja garðinum. Hlýleg sæti og íslenskur gróður bjóða borgarbúa velkomna í garðinn við torgið.
Austurbakki
Teymi: Red Carpet.
Verkefnið gengur út á að endurskilgreina tengingu líkt og rauðan dregil frá miðbænum, frá Pósthússtræti út að Hörpu og mynda þar nýtt almenningsrými. Röð af fánum skilgreina tenginguna ásamt grafískri nálgun í götu.
Bæjarins bezta torg
Teymi: M3.
Meginhugmynd að breytingum á svæðinu er að tengja saman þætti í nánasta umhverfi torgsins með litanotkun. Helsta áherslan er á sjálft torgið og tengsl þess við Kolaportið og mósaíklistaverk Gerðar Helgadóttur. Mikil umferð gangandi fólks á þessu svæði kallar á óformlega afmörkun á milli fólks og bíla. Setusvæði eru afmörkuð í tengslum við matsölustaðinn Bæjarins beztu og veitingastaðinn Hornið við Hafnarstræti.
Hlemmur
Teymi: Bæjarhliðið Hlemmur.
Grunnhugmyndin er að reisa bæjarhlið miðbæjarins við Hlemmtorg. Mikilvægt er að auka táknrænt gildi torgsins í hugum fólks sem móttökustöð miðbæjarins úr austurátt og skapa þannig mótvægi við vesturhluta hans. Setusvæði með íslenskum lággróðri er komið fyrir svo farþegar geti tyllt sér á meðan þeir bíða eftir strætó.
Laugavegur og Skólavörðustígur
Teymi: María Markó.
Hugmyndin er að gera tímabundnar innsetningar sem vekja áhuga fólks á göngugötunni og hvetja fólk til að dvelja lengur á svæðinu ásamt því að fjarlægja huglægu skilin milli gangstéttar og götunnar sjálfrar. Fánar, parís, ljóð og litir einkenna götuna. Ljósmyndakeppni um bestu mannlífsmyndirnar er í fullum gangi en QR kóðar gera vegfarendum kleift að senda myndir beint inn á facebook síðu verkefnisins.
Fógetagarður
Teymi: Himinn & Haf.
Hugmyndin er að auka notkun Fógetagarðsins með því skapa sérstaka umgjörð utan um torgið sem kallar á athygli fólks sem á leið framhjá. Vefur er spunninn úr nælongirni á milli húsveggja og hárra trjáa í kringum torgið, líkt og að köngulóavefur hafi verið spunninn í horni á yfirgefnu húsi. Bólstruð, rauð seglhúsgögn prýða garðinn þar sem fólki er boðið að setjast niður, horfa til himins og slaka á.
Árbæjartorg
Teymi: The Turf Network.
Matjurtagarðar á mörgum hæðum, setuaðstaða og gróður eru aðalatriði í innsetningu The Turf Network. Hópurinn hefur tekið yfir hluta af Árbæjartorgi og búið til stallað landslag á áður illa farinni grasflöt. Notast er við endurunnin efni og gróður. Krakkarnir á svæðinu hafa aðstoðað The Turf Network við smíðina með góðum árangri. Svæðið var valið út frá íbúakosningu betri hverfa.
Snekkjuvogur
Teymi: Barabúmm.
Verkefnið gengur út á að vinna með almenningssvæðin á horni Snekkjuvogs (fyrir utan Ólabúð) og leikvöllinn Rúnuróló við Snekkjuvog. Við róluvöllinn er skeifulaga grasbrekka með hellulögðu plani í miðju. Á planið var smíðað lítið svið og skeifan sjálf virkar sem áhorfendapallur í kring. Sunnudaginn 15. júlí var haldið sumarhátíð, eða einskonar karnival, á sviðinu á Rúnuróló. Hverfisbúar fjölmenntu á rólóinn til að vígja sviðið, Jón Jónsson spilaði, grillaðar voru pulsur og íbúar sungu í karókí. Markmiðið er að Rúnuróló verði meira nýttur af börnum og fullorðnum í hverfinu og að hann verði spennandi vettvangur fyrir fólk sem vill láta ljós sitt skína. Svæðið var valið út frá íbúakosningu betri hverfa.
Gnoðarvogur
Teymi: Mót.
Fjölnota sætisaðstaða er búin til sem áningarstaður við göngustíg á milli Gnoðarvogs og Suðurlandsbrautar. Svæðið var valið út frá íbúakosningu betri hverfa.
Laugalækur
Teymi: Biðsvæðastjórar Reykjavíkur.
Búin eru til íverurými fyrir utan verslanir sem afmörkuð eru með gróðri. Markaður með íbúasamtökunum verður haldinn á menningarnótt. Svæðið var valið út frá íbúakosningu betri hverfa.
Arnarbakki
Teymi: Biðsvæðastjórar Reykjavíkur.
Áætlað er að hafa tjarnarpartý við Arnarbakka en þar verður búin til grunn tjörn. Íbúum verður boðið að koma, boðið verður upp á tónlist og haldin grillveisla. (28. júlí.). Sett verður upp sýning um sögu Bakkahverfisins og verður henni dreift um svæðið. Núverandi og fyrrverandi íbúar deila sínum sögum og myndum úr hverfinu. Í tengslum við sýninguna verður söguganga með Ágústu Kristófersdóttir. (Um miðjan ágúst.)
Álfheimar
Teymi: Biðsvæðastjórar Reykjavíkur.
Myndlistar- og ljósmyndasýningar verða haldnar bæði inni og úti. Lífgað upp á svæðið með nýstárlegum gróðurkerjum. Grænmetisvagn mun selja vörur sínar á laugardögum frá 11-18.
Markúsartorg við Gerðuberg
Teymi: Biðsvæðastjórar Reykjavíkur.
Búin verður til aðstaða til þess að halda útisýningar á torginu. Iðjuberg og Gylfaflöt halda sýningu og markað í lok júlí. Sýningaraðstaðan (stöplar og sæti) verður geymd á svæðinu og líklega haldnar fleiri sýningar með haustinu.