Á Hverfisgötu eru margir starfsmenn verktaka að störfum við erfiðar aðstæður. Verið er að ganga frá snjóbræðslu í gangstéttar að sunnanverðu á stórum kafla Hverfisgötunnar og stefnt er að malbikun hjólastíga og hellulögn næstu daga. Á föstudag verður opnað fyrir bílaumferð niður Hverfisgötu frá Vatnsstíg.
Vinna við endurgerð Hverfisgötu frá Vitastíg niður að Klapparstíg hófst upp úr miðjum júlí og er um mjög umfangsmikla aðgerð að ræða. Allt yfirborð götu og gangstétta verður endurnýjað, ásamt öllum lögnum. Malbikaðar hjólareinar verða beggja vegna götu. Gatnamót við þvergötur verða steinlögð og upphækkuð. Snjóbræðsla verður sett í gönguleiðir, hjólareinar og upphækkuð gatnamót.
Til stóð að framkvæmdum lyki í nóvember en það gekk ekki eftir af ýmsum ástæðum svo sem seinlegrar lagnavinnu. Þá var ákveðið eftir að vinna hófst að seinka upphafi framkvæmda á gatnamótum Hverfisgötu og Frakkastígs til að auðvelda flæði umferðar um miðborgina. Ekki var byrjað að grafa fyrir lögnum þar fyrr en undir lok október og eðli málsins vegna seinkar verklokum í samræmi við það. Verið er að ganga frá fyllingum við fráveitulagnir og verður þá strax greiðfærara fyrir gangandi vegfarendur um svæðið. Endanlegum frágangi á þessum gatnamótum lýkur eftir jól.
Lagnavinnu að sunnanverðu víða lokið
Víðast er búið að malbika neðra malbikslag í götu og lagnavinnu í gangstéttum, einkum að sunnanverðu, er víða lokið. Verkið er mislangt komið eftir götuköflum og í dag er staðan þessi:
• Gatnamót Hverfisgötu og Vitastígs hafa verið opnuð fyrir bílaumferð. Gangstéttar verða hellulagðar í beinu framhaldi af tengingu símalagna. Búið er að fylla að lögnum og fljótlega verður jafnað undir snjóbræðslu.
• Frá Vitastíg að Frakkastíg er búið að malbika neðra lag og vinnu við lagnir undir gangstétt að sunnanverðu að mestu lokið. Fljótlega verður jafnað undir snjóbræðslu og hún lögð. Vinna við hitaveitulagnir og stofna fyrir snjóbræðslu er í gangi að norðanverðu.
• Gatnamót Hverfisgötu og Frakkastígs: Hér var eins og áður segir ekki byrjað að grafa fyrir lögnum fyrr en 28. október þar sem reynt var að halda gatnamótum opnum lengur til að draga úr truflun á umferð um miðborgina. Verið er að ganga frá fyllingum við fráveitulagnir og verður þá strax greiðfærara fyrir gangandi vegfarendur um svæðið. Endanlegum frágangi á þessum gatnamótum lýkur eftir jól.
• Hverfisgata frá Frakkastíg að Vatnsstíg: Lagnavinnu í gangstéttum og hjólastígum er lokið. Verið er að leggja snjóbræðslu og malbikun hjólastíga og hellulögn næstu daga.
• Gatnamót Hverfisgötu og Vatnsstígs: Undirlag fyrir snjóbræðslu er komið. Áhersla er lögð á snjóbræðslu og hellulögn og hjólastíg, en vinnu snjóbræðslu og hellur í götunni hefur verið frestað fram yfir áramót. Gatnamótin verða opnuð á föstudag fyrir bílaumferð af Vatnsstíg og niður Hverfisgötu til vesturs.
• Hverfisgata frá Vatnsstíg að Klapparstíg: Búið er að malbika neðra lag götunnar og vinnu við lagnir undir gangstétt að að mestu lokið. Fljótlega verður jafnað undir snjóbræðslu og hún lögð.
• Gatnamót Hverfisgötu og Klapparstígs: Gengið verður frá bráðabirgðalögnum, en beðið er með frekari yfirborðsvinnu m.a. vegna vinnu á nærliggjandi byggingarsvæði.