Mikilvægt að fá blandaða byggð í Grafarholti

Skipulagsmál

""

Líflegar umræður voru á hverfafundi í Grafarholti og Úlfarsárdal. Á sjötta tug manna mættu til fundarsins miðvikudaginn 25. september til að setja fram hugmyndir um það sem betur má fara í skipulagi hverfisins. Fram kom að sérbýli vantaði í Grafarholti fyrir frumbyggjana og vilja búa áfram í hverfinu og að mikilvægt væri að fá blandaða byggð í hverfinu.

Margt brann á íbúum í Úlfarsárdal og var kallað eftir efndum á því skipulagi sem íbúar telja að þeim hafi hafi verið lofað. Rætt var um að deiliskipulaginu hafi verið mikið breytt frá upphaflegum áformum. Skiptar skoðanir voru meðal íbúa með staðsetningu á nýjum grunnskóla í dalnum og bent var á að enginn strætisvagn gangi inn allan Úlfarsárdalinn. Þá fannst fólki vanta betri almenningssamgöngur við grannhverfin. Íbúar í Grafarholti höfðu mikinn skilning á vanda frumbyggjanna í Úlfarsárdal.



Hvað varðar græna svæðið á milli Úlfarsárdals og Grafarholts þá telja íbúar það vannýtt, enda grýtt holt. Mikilvægt sé að skapa aðstæður til að fólk geti komist hættulaust nær ánni, t.d. með stígum. Þá settu fundarmenn fram þá hugmynd að kattahald yrði bannað í hverfinu til að bæta og auka fuglalífið. Annað sem fram koma snerist um ófullnægjandi heilsugæslu í hverfinu og hættuleg gatnamót við Nóatún.