Tveir norskir kennarar heimsækja þessa dagana grunnskóla borgarinnar og kenna nemendum raunvísindi á óhefðbundinn hátt.
Þeir Ivar og Magne eru frá vísindahluta Jærmuseet í Noregi og sýna þeir vísindaleg töfrabrögð og kenna í gegnum skemmtilegar tilraunir og leiki. Í morgun voru þeir í Dalskóla og vöktu mikla lukku þegar þeir sýndu kúnstir sínar.
Þeir Ivar og Magne komu með færanlegt vísinda- og fræðasafn til raunvísindakennslu, en heimsókn þeirra hingað til lands er samstarfsverkefni Jærmuseet, Fjölskyldu- og húsdýragarðsins og SFS.
Markmið heimsóknarinnar er að miðla reynslu og þekkingu þeirra Norðmanna á sviði raunvísindafræðslu til kennara og nemenda í Reykjavík. M.a. býðst kennurum að sækja námskeið hjá þeim tvemenningunum, sér að kostnaðarlausu. Verkefnið er styrkt af Norsk-íslenska menningarsjóðnum.
Norsku vísindatöframennirnir komu líka fyrir ári og heimsóttu þá meðal annars nemendur í Melaskóla.