Langholtsskóli Sigraði Skrekk 2013 með ástinni

Skóli og frístund

""

Langholtsskóli sigraði Skrekk 2013, í öðru sæti varð Réttarholtsskóli  og Hlíðaskóli í því þriðja. 

Siguratriði Langholtsskóla heitir Hjartað og fjallar um það hversu fáránlegt það er að fordæma ást í hvaða formi sem hún birtist. Allir eiga rétt á að elska og vera elskaðir. Atriðið úr Réttarholtsskóla fjallaði um lystarstol og Hlíðarskóli gerði samskiptamiðla að umfjöllunarefni. 

Eva Einarsdóttir formaður ÍTR afhenti sigurvegurunum úr Langholtsskóla Skrekksstyttuna eftirsóknarverðu við mikil fagnaðarlæti og þakkaði um leið Markúsi Guðmundssyni forstöðumanni Hins Hússins fyrir umsjónina með hæfileikakeppninni síðastliðin 20 ár.

Atriðin úr skólunum átta sem kepptu til úrslita í kvöld voru af ýmsum toga og fjölluðu um ólík efni eins og staðalmyndir, lystarstol, dauðann, ástina, afbrot og græðgi. Óhætt er að segja að áhorfendur hafi skemmt sér vel og tekið virkan þátt í skemmtuninni sem var sjónvarpað beint á Skjá einum. Hljómsveitin Baggalútur tók eitt lag í lok dagskrár, Mamma þarf að djamma, og tók  allur salurinn vel undir. 

Skrekkur gerist ekki af sjálfu sér og er þeim átta hundruð nemendum úr 23 skólum sem tóku þátt í keppninni í ár þakkað þeirra framlag svo og kennurum þeirra og öðrum leiðbeinendum í skóla- og frístundastarfi.