Atvinnutorg sannar gildi sitt
Fyrsta ársskýrsla Atvinnutorgs er komin út og sýnir að átaksverkefnið, sem miðar að því að auka virkni og atvinnuþátttöku 18 - 24 ára ungmenna, er að skila góðum árangri. Atvinnutorg er tilraunaverkefni til þriggja ára með það að markmiði að auka virkni ungra atvinnuleitenda með áherslu á þá sem eingöngu hafa fjárhagsaðstoð til framfærslu hjá Reykjavíkurborg.
Sem dæmi um árangur Atvinnutorgs hafa, samkvæmt ársskýrslu, 95 af þeim 226 einstaklingum sem þangað sóttu þjónustu fengið tilboð um atvinnu. Af þeim eru 78 ennþá í starfinu. Aðrir 13 fóru í nám. Þetta verður að teljast góður árangur eftir einungis 10 mánaða starfsemi. Við mat á svona úrræði verður að hafa í huga að Atvinnutorg sinnir þeim hópi ungs fólks sem hefur litla eða enga starfsreynslu og glímir í sumum tilvikum við félagslegar hindranir af ýmsum toga.
Mikilvægt hefur reynst að bjóða ungmennin velkomin daglega á Atvinnutorg, byggja upp traust og vinna á einstaklingsmiðaðan hátt með hverjum og einum. Með því móti hafa ungmennin fengið raunverulegan stuðning til að fara í nám eða hefja störf á almennum vinnumarkaði í stað þess að þiggja atvinnuleysisbætur/fjárhagsaðstoð.
Starfsfólk Atvinnutorgs mun halda áfram að byggja upp einstaklingsmiðaða þjónustu með áherslu á þann hóp sem ekki hefur bótarétt þannig að raunverulegur árangur náist og að ungt fólk komist sem fyrst í þá stöðu að geta farið að framfleyta sér.
Samstarf Reykjavíkurborgar og Vinnumálastofnunar hefur gengið vel og horft er til aukins samstarf í framtíðinni.
Þess má geta að í síðustu viku náði Atvinnutorg þeim árangri að 100 ungmenni höfðu fengið vinnu í gegnum verkefnið.