Opnunargleði á bæjarins bezta torgi
Hönnunarhópurinn Rúmmeter (M3)sem unnið hefur að breytingum á „Bæjarins bezta torgi“ að undanförnu stendur fyrir opnunarhátíð á torginu á föstudag milli kl. 16 og 18.
Trúbadorinn Skúli Mennski spilar og auk þess ætlar plötusnúðurinn dj Jaketries að gleðja gesti og gangandi með smá föstudagsdilli. Veitingastaðurinn Hornið verður með tilboð á kaffi og köku.
Sara Axelsdóttir arkitekt í hönnunarhópnum Rúmmeter segir að hugmyndir þeirra við breytingar á svæðinu gangi út á að tengja saman þætti í nánasta umhverfi torgsins með litanotkun. Mesta áherslan er lögð á sjálft torgið og tengsl þess við mósaíklistaverk Gerðar Helgadóttur. Mikil umferð gangandi fólks á þessu svæði kallar á óformlega afmörkun á milli fólks og bíla. Setusvæði eru afmörkuð í tengslum við matsölustaðinn Bæjarins beztu og veitingastaðinn Hornið við Hafnarstræti.
Breytingarnar á svæðinu eru hluti af verkefninu „Biðsvæði - Torg í biðstöðu“, en þar er framtíðarnotkun og möguleikar afmarkaðra svæða til skoðunar. Biðsvæðum var snemma í sumar úthlutað eftir auglýsingu til hópa og einstaklinga sem gera tilraunir í borgarrýminu. Markmið verkefnisins er að glæða almenningsrýmin lífi og hvetja til umhugsunar og umræðu um framtíð þeirra. Sjá nánar undir www.reykjavik.is/bidsvaedi.
Samskiptasíða Rúmmeters: https://www.facebook.com/Rummeter.