Hjálpum öndunum að koma upp ungum - ekki gefa brauð

Andarungar eru nú óðum að koma úr eggjum og sjást nú á ferð með foreldrum sínum á Tjörninni. Á meðfylgjandi mynd má sjá æðarhjón, með unga sína tvo, synda um á Tjörninni í gærdag og með hverjum deginum fjölgar ungunum. Rétt er að ítreka að gefa ekki öndunum brauð á þessum viðkvæma árstíma þegar ungviðið er að komast á legg. Sílamávurinn, sem er helsti vargfuglinn við Tjörnina, sækir stíft í brauðgjafir og annan skyndibita en um leið tínir hann upp andarungana þegar þeir skríða úr eggi eða eru á sundi í Tjörninni. Hægt er að leggja öndunum lið við að koma upp ungum sínum með því að hætta að gefa fuglum við Tjörnina brauð yfir sumartímann, enda laðar slíkt mávana að, en gagnast hvorki öndum né ungum þeirra. Mikilvægast er að gefa ekki brauð í júní og júlí á meðan andarungar eru að komast á legg.

Mávurinn leitar líka í matarleifar sem standa honum til boða í opnum ruslatunnum eða rusli sem fleygt er í götuna og því er fólk líka hvatt til að ganga vel um og og skilja ekki matarúrgang eftir óvarinn.

Fækkun máva er mikilvægur þáttur í því að bæta afkomu andarunga en viðkomubrestur stendur andastofnum á Tjörninni fyrir þrifum. Á sumrin er meira af náttúrulegu æti í Tjörninni fyrir endur og svani en yfir vetrartímann og því minni þörf fyrir brauðbitann.