Gestaspjall um Tàpies - Ingibjörg Jónsdóttir og Kristinn Már Pálmason. Kjarvalsstaðir, sunnudag 25. mars kl. 15

Myndlistarmennirnir Ingibjörg Jónsdóttir og Kristinn Már Pálmason taka þátt í spjalli um sýningu katalónska listamannsins Antoni Tàpies og ræða eigin hughrif og sýn á verk Tàpies og þau áhrif sem verk hans hafa í list samtímans.

Sýningin, sem ber yfirskriftina Antoni Tàpies – Mynd, líkami, tregi er víðtækt yfirlit yfir starfsferil listamannsins. En hann er almennt talinn einn helsti áhrifavaldur í þróun málverksins á síðari hluta tuttugustu aldarinnar. Tàpies var undir sterkum áhrifum frá súrrealískum málurum á borð við Miro og Klee í upphafi ferils síns, en síðar meir þróaði hann sitt eigið myndmál með uppbyggðum myndfleti sem oft var ýfður upp með stöfum, tölum og táknum. Flest verka hans eru úr hversdagslegum hlutum, fundnu efni, mold, sandi, jarðvegi, þurrkuðu blóði og steinryki.

Ingibjörg Jónsdóttir (f. 1959) er einkum þekkt fyrir afar sjónrænar innsetningar sem sameina grunnþætti vefnaðarlistar og þríðvíðra verka, en bakgrunnur hennar liggur í báðum þessum miðlum. Hún útskrifaðist frá Myndlista- og handíðaskóla Íslands árið 1980 og stundaði framhaldsnám í bæði Mexíkó (1978 – 79) og Kaupmannahöfn (1983 – 84).

Kristinn Már Pálmason (f.1967) hefur sérstaklega fengist við það að rannsaka mörk og samhengi málverksins og gert tilraunir með óhefðbundna efnisnotkun og persónulegt myndmál. Kristinn úskrifaðist frá Myndlista- og handíðaskóla Íslands árið 1994 og lauk framhaldsnámi við Slade School of Fine Art í London árið 1998.

 

Frítt er fyrir handhafa Menningarkortsins, en nánari upplýsingar um aðgangseyri eru hér.

Nánari upplýsingar um viðburði vetrarins má finna hér.