Fékk nýtnina í vöggugjöf
Anna María Lind Geirsdóttir, veflistamaður, var sótt heim í tilefni Nýtnivikunnar 17. - 25. nóvember hjá Reykjavíkurborg. Anna María vinnur bómullarmottur úr notuðum efnum og fötum eða tuskum eins og hún kallar það.
Aðspurð um hvenær hún fór að leiða hugann að nýtni svarar hún því til að hún þekki ekki annað. „Mamma, sem er finnsk, lærði vel að nýta alla hluti. Finnar fengu slæma útreið í seinni heimstyrjöldinni og þjóðin var hvött til að nýta vel það sem úr var að moða. Amma var frábær saumakona og kenndi mömmu að sauma og þrátt fyrir harðindin var mamma alltaf vel klædd því hún nýtti allt sem hún fann, bætti og breytti svo úr urðu fallegar og sérstakar flíkur. Það má segja að nýtnin og sköpunargleðin séu mín arfleið,“ segir Anna María.
Átta ára gömul fór Anna María til Kristinestad í Finnlandi og kynntist þar frænkum sínum sem allar ófu. Minnistæðust var Imbi frænka en hún var atvinnuvefari. Seinna lærði Anna María svo vefnað í Finnlandi en þar opnaðist henni heill heimur þegar hún óf fyrsta tuskuteppið. „Gömlu bómullarmotturnar sem ég þekkti frá barnsaldri eru miklu betri en mottur ofnar úr gerviefnum sem geta orðið mjög hálar. Auk þess að vera náttúrulegt efni hentar bómull mun betur í mottugerð,“ segir Anna María.
Tuskurnar sem hún notar koma að mestu frá vinum og kunningjum: Fólk skilur eftir poka við dyrnar hjá henni og nú er hún líka farin að auglýsa á fésbókinni þegar hana vantar sérstaka liti. Til dæmis vantar hana grænan lit um þessar mundir. Anna María litar ekki tuskurnar, bæði af umhverfisástæðum og vegna þess að það er meiri ögrun að skapa úr tuskunum eins og hún fær þær. Þegar efniviðurinn er kominn er hann klipptur niður í mjóar ræmur sem er vafið á skyttur og síðan er mottan ofin.
Götuskilti og geirfugl
Þegar gengið er inn hjá Önnu Maríu er tvennt sem vekur athygli annars vegar götuskilti sem á stendur Weberstrasse og hitt er veggteppi af geirfugli. Hún vinnur munina sína undir merkinu Weberstrasse.
En af hverju Weberstrasse?
„Gamall og góður austurrískur vinur færði mér þetta gamla götuskilti sem á stendur Weberstrasse. Hann gaf mér það vegna þess að ég er að vefa en nafnið þýðir Vefarastræti. Þegar ég var svo að leita að merki til að vinna undir og til að stofna heimasíðu, www.weberstrasse.net, fyrir vinnuna mína fannst mér gefa auga leið að nota skiltið sem nafn og auðkenni. Geirfuglinn er hins vegar áminning um að ganga vel um náttúruna og lífríkið en tegundir deyja út og náttúran mengast. Verkið vann ég á vinnustofu Straums í Hafnarfirði þegar deilurnar um Kárahnjúkavirkjun stóðu sem hæst.“
Grænn lífstíll skemmtilegur
Anna María segir að möguleikarnir séu endalausir, ekki einungis í vefnaði heldur sé líka hægt að hekla, hnýta og sauma og endurnýta með því efni. Margar konur eru farnar að vinna bútasaum einungis úr gömlum fötum eða tuskum og í raun er það miklu skemmtilegra og reynir mun meira á hugmyndaflugið en að fara eftir fyrirfram gefinni uppskrift.
Gamlar tölur og hnappar eru líka fjársjóður sem geta tekið á sig ótal myndir hvort sem átt er við augu á tuskudýri eða skart í einhverri mynd. Sjálf hefur hún verið að leika sér að því að búa til gluggatjöld úr blúndum, sem falla til af slitnum dúkum og sængurverum, auk þess að sauma skjóður úr fallegum bútum „Ég gef þetta sem tækifærisgjafir og hvet fólk til að nota þær í smærri innkaup,“ segir Anna María.
Hún endurskapar ekki eingöngu úr notuðu heldur hefur hún tileinkað sér grænan lífstíl með því að endurvinna, jarðgera lífrænan úrgang, flokka og draga úr sorpi eins henni er frekast unnt. Anna María hefur gert þetta árum saman og segist nú verða var við breytingar hjá Íslendingum: „Við flokkum nú meira og nú eru komnir gámar fyrir plastumbúðir sem eru jafn fullir og pappírsgámarnir. Grænn lífstíll er ekki bara nauðsynlegur fyrir lífríki jarðar heldur er hann líka svo miklu skemmtilegri,“ segir Anna María að lokum.