Erró gefur Listasafni Reykjavíkur tepotta í Hönnunarmars
Hönnunarmars er að ganga í garð, sem líklega hefur ekki farið fram hjá neinum, en Listasafn Reykjavíkur leitaði til Errós eftir hugmynd að þátttöku í verkefninu. Af miklu örlæti, sem listamaðurinn er kunnur fyrir, lagði hann til verkefnisins sjö tilkomumikla kínverska postulíns tepotta og tilkynnti samtímis að pottarnir væru gjöf til Listasafnsins. Pottar sem þessir eru þekktir í kínverskri menningu og notaðir til að geyma mikið magn af telaufum, enda eru þeir mjög umfangsmiklir og rúma nokkur kíló af laufum. Erró myndskreytti pottana árið 2009 að frumkvæði franska útgefandans Stéphane Klein og verða þeir sýndir ásamt þeim málverkum Errós sem hann notaði að hluta til sem fyrirmyndir að myndskreytingunum.
Sýningin á tepottunum sjö stendur yfir í Hafnarhúsinu frá fimmtudeginum 22. mars til 9. apríl.
Sýningarstjóri er Danielle Kvaran.
HÖNNUNARMARS
Auk tepotta Errós verður boðið upp á eftirfarandi dagskrá í tengslum við Hönnunarmars í Hafnarhúsinu frá föstudegi til sunnudags.
FLÉTTA
Sýningin Flétta endurspeglar þema HönnunarMars 2012, en þverfagleg samvinna milli greina er í brennidepli í ár. Textílfélagið og Leirlistafélag Íslands standa að sýningunni og hvetja félaga í aðildarfélögum Hönnunarmiðstöðvar til að vinna saman að verkum fyrir sýninguna. Sýnendur flétta því saman hugmyndir sínar og skapa nýjar og ferskar afurðir. Tólf verkefni voru valin inn á sýninguna.
BAK VIÐ TJÖLDIN - FRÁ HUGMYND AÐ VERULEIKA
Í formi listrænnar innsetningar, hljóðverks og gjörnings veitir Fatahönnunarfélag Íslands áhorfendum innsýn í vinnuferli fatahönnuða við gerð tískulínu. Allt frá hugmyndavinnu og fyrstu skissum, að lokaútkomu í fullbúinni flík.
Sjá nánar á honnunarmars.is.