2000 myndir á 4 dögum í sjálfustöðinni við Hallgrímskirkju

Menning og listir Mannlíf

""

Sjálfustöð eða Selfie Station hefur verið tekin í notkun á torginu fyrir framan Hallgrímskirkju.

Markmiðið með Sjálfustöðinni eða Selfie Station er að gefa gestum og gangandi tækifæri til að taka sjálfsmyndir á vinsælum viðkomustöðum í borginni.  Davíð Örn Þórisson og félagi hans Þórarinn Árni Pálsson eru stofnendur Selfie Station, en verkefnið var meðal þeirra 10 af 128 umsækjendum sem komust inn í Startup Tourism viðskiptahraðalinn, sem haldinn var í vor.

Davíð segir Sjálfustöðina vera einfalda og auðvelda í notkun. „Þetta er myndavél, tölva og snertiskjár í vatnsheldri umgjörð, þar sem fólk getur stillt sér upp og tekið sjálfsmyndir sem það fær svo sendar í tölvupósti og getur þá deilt þeim á samfélagsmiðlum eða öðrum stöðum“.

Almenn ánægja er með stöðina og á fjórum dögum hefur stöðin tekið yfir 2000 myndir og sent á um 1400 netföng gesta sem notuðu stöðina á leið sinni um torgið fyrir framan Hallgrímskirkju. „Við höfum fengið fjölda þakkarpósta frá fjölda fólks hvaðanæva að úr heiminum og kann fólk vel að meta þessa nýjung“ segir Davíð. Myndirnar segja sína sögu.

Verkefnið var unnið í samvinnu við Reykjavíkurborg og hlaut styrk úr miðborgarsjóði.