17. júní í Reykjavík

Umhverfi Skóli og frístund

""
Þjóðhátíðardagskrá í Reykjavík hefst kl. 10 um morguninn og lýkur kl. 18 með hefðbundinni hátíðardagskrá, fjölskyldu og tónleikadagskrá, skrúðgöngum, götuuppákomum, sýningum, leiktækjum og fleiru. 
Um morguninn hefst dagskráin með messu í Dómkirkjunni sem er útvarpað en kl. 11:10 hefst hátíðardagskrá á vegum Alþingis og Forsætisráðuneytisins.  Karlakórinn Fóstbræður og Barna- og unglingakór Hallgrímskirkju og Barnakór Ísaksskóla syngja, Lúðrasveitin Svanur leikur, fjallkonan flytur sitt ávarp, forsætisráherra heldur ræðu og forseti Íslands leggur blómsveig frá íslensku þjóðinni að minnisvarða Jóns Sigurðssonar. Þessari athöfn er sjónvarpað og útvarpað.
 
Að lokinni athöfn fer skrúðganga frá Austurvelli í kirkjugarðinn við Suðurgötu þar sem forseti borgarstjórnar  leggur blómsveig frá Reykvíkingum á leiði Jóns Sigurðssonar og Ingibjargar Einarsdóttur.
 

Aðalhátíðasvæðið í ár er nágrenni tjarnarinnar en þar verður dagskrá síðdegis. Í görðum og götum verða fjölskylduskemmtanir, tónleikar, götuleikhús, sirkus, leiktæki, veitingatjöld, íþrótta- og fornbílasýningar og margt margt fleira. Stórt svið verður syðst í garðinum með fjölskyldudagskrá og tónleikum, minna svið vestan við Þorfinnstjörn með íþróttasýningum og tónlistaratriðum, Skátaland verður með leiktæki og þrautabrautir á austurbakkanum en á vesturbakkanum verður Sirkus Íslands. Brúðubíllinn er að venju í Hallargarðinum, kraftakarlar og víkingar á Ísbjarnarflötinnu, fornbílasýning á brúnni og leiktæki og ýmis atriði eru í götunum í kringum tjörnina. Í Ráðhúsinu er tónlistardagskrá og harmóníkudansleikur en í Iðnó og Fríkirkjunni ráða Listhópar Hins Hússins ríkjum.

 
Í Hörpu verða ýmis tónlistaratriði á sviðum í Smurstöðinni og í Hörpuhorni en barnadagskrá með Fjörkörlum og Sirkus Íslands á Norðurbryggju. Í Eldborg leiðir Óperukórinn í Reykjavík þjóðina í söng undir stjórn Garðars Cortes auk annara tónlistaratriða og einnig verða sýndir  íslenskir þjóðdansar. Í austurhöfninni verður siglingakeppni Brokeyjar, kraftakeppni verður á Austurvelli og þjóðhátíðarbænastund verður í Landakotskirkju.
 
Dagskrá 17. júní í Reykjavík hefur nú verið birt á vefnum 17juni.is á íslensku, ensku og pólsku og þar eru einnig upplýsingar um aksturstakmarkanir í miðborginni á þjóðhátíðardaginn.