12 metra hátt Oslóartré fellt í Heiðmörk 

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og Sævar Hreiðarsson skógarvörður hjá Skógræktarfélagi Reykjavíkur sáu um að fella Oslóartréð.
Felling Oslóartrésins í Heiðmörk

Það var fallegt um að litast í Heiðmörk í hádeginu í dag þegar Dagur B. Eggertsson borgarstjóri felldi Oslóartréð sem mun prýða Austurvöll yfir hátíðarnar. 

Eftir að hafa fengið viðeigandi öryggisútbúnað hjá Skógræktinni til verksins naut borgarstjóri aðstoðar Sævars Hreiðarssonar skógarvarðar hjá Skógræktarfélagi Reykjavíkur við að saga tréð og fella það. Við mælingu reyndist það vera um 12,30 metra hátt sitkagrenitré sem er um 51 árs gamalt og talið að því hafi verið plantað um 1972. 

Oslóarborg hefur í áratugi gefið Reykvíkingum jólatré sem tákn um vináttu borganna og sameiginlegar hefðir og jólagleði. Sendiherra Noregs Cecilie Willoch, var viðstödd athöfnina í Heiðmörk og þakkaði fyrir vinskap borganna tveggja og þetta falleg tré. Þó svo að Oslóartréð komi úr Heiðmörk þá hefur það ekki breytt neinu um vináttuna, því í stað jólatrés gefa borgaryfirvöld í Osló grunnskólum í Reykjavík bækur. 

Hanna í Horni sendikvinna Færeyja á Íslandi var einnig viðstödd athöfnina, en kveikt var á jólatré sem er gjöf frá Reykjavíkurborg í Þórshöfn í Færeyjum um liðna helgi. Tréð í Þórshöfn var einmitt fellt fyrr í mánuðinum og flutti Eimskip tréð til Færeyja. 

Oslóartréð verður sett upp á Austurvelli og verður mikið lagt í skreytingar að þessu sinni til þess að gleðja gesti og gangandi. Jólaljósin á trénu verða svo tendruð við hátíðlega athöfn á fyrsta sunnudegi í aðventu þann 3. desember næstkomandi klukkan 16.00.