12 leik- og grunnskólalóðir endurgerðar eða lagfærðar

Leiksvæði við Melaskóla. Mynd/Víðir Bragason
Leiksvæði við Melaskóla

Alls verða tólf lóðir við leik- og grunnskóla Reykjavíkurborgar ýmist endurgerðar eða lagfærðar í ár fyrir samtals 540 milljónir. Áætlað er að framkvæmdir hefjist í júní og þeim ljúki í september.

Borgarráð heimilaði í dag umhverfis- og skipulagssviði að bjóða út þessar framkvæmdir.

Alls verða tíu grunn- og leikskólalóðir endurgerðar en framkvæmdirnar fara yfirleitt fram í áföngum. Endurgerð felur í sér endurskipulagningu og endurnýjun lóðar.

Leikskólalóðir

  • Hálsaskógur-Borg 2. áfangi
  • Klambrar 1. áfangi
  • Suðurborg 1. áfangi
  • Tjarnarborg-Tjörn heildaráfangi
  • Reynisholt ungbarnasvæði
  •  Sunnufold-Frosti aðkoma, hjólastæði o.fl.

Grunnskólalóðir

  • Breiðholtsskóli 3. áfangi
  • Borgaskóli 1. áfangi
  • Vogaskóli boltavellir og rólusvæði – fyrri áfangi
  • Langholtsskóli leiksvæði suðvesturhluta

Gert ráð fyrir að farið verði í ýmis átaksverkefni á tveimur leikskólalóðum til viðbótar. Átaksverkefni eru gerð á lóðum þar sem skipulag er í lagi en styrkja eða endurnýja þarf einstök svæði innan lóðar. Á þessum lóðum verða leiktæki endurnýjuð á hluta leiksvæða og öryggismöl skipt út með nýju fallvarnarefni og/eða gervigrasi.