1000 Römpum fagnað og verkefnið stækkað

Dagur B. Eggertsson og Haraldur Þorleifsson

Leiðarlínum fyrir blinda og sjónskerta verður bætt við þá rampa sem gerðir eru og sett í forgang að skoða og bæta aðgengismál í leik- og grunnskólum. Þetta er meðal þess sem kemur fram í viðauka við samning Reykjavíkurborgar við Römpum upp Ísland sem Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og Haraldur Þorleifsson undirrituðu í gær þegar þeim stóráfanga var fagnað að eitt þúsund rampar hafa verið byggðir.

Það var mikil gleði á hátíð sem haldin var á heimili Haraldar Þorleifssonar athafnamanns en hann er drifkrafturinn að baki Römpum upp verkefninu sem byrjaði í Reykjavík en hefur nú verið útvíkkað til landsins alls. Þar kom fjölmennur hópur saman til að fagna eitt þúsundasta rampinum sem byggður var við Hitt Húsið, miðstöð ungs fólks í Reykjavík.

Vilhjálmur Hauksson talar á fögnuði vegna 1000 rampa

Vilhjálmur Hauksson sem er meðal þeirra ungmenna nýta sér bætt aðgengi að Hinu Húsinu sagði eitt það besta við verkefnið að nú sé alls konar fólk farið að hugsa um aðgengismál í víðara samhengi. Undir þetta tóku bæði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands. Katrín þakkaði Haraldi sérstaklega fyrir að ýta úr vör verkefni sem hún lítur svo á að snúist um að búa til hindrunarlaust Ísland og Guðni forseti talaði um mikilvægi þess að huga að óáþreifanlegum þáttum í tengslum við bætt aðgengi. Forsetinn tók dæmi af tónleikum sem hann fór á nýverið með hreyfihömluðum vini þar sem sætin voru á besta stað þar til gestir stóðu upp og fóru að dansa og sviðið hvarf sjónum.

Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra sagði það áhugavert fyrir samfélagið að það þurfi frumkvöðla eins og Harald til að ýta svona mikilvægum verkefnum af stað. Verkefni eins og þessi snúist í grunninn um að fjarlægja þröskulda og hann segist tilbúinn í næsta áfanga.

Dagur talar við börn úr Hinu Húsinu

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri sagði magnað að þúsundasti rampurinn hafi verið byggður við Hitt Húsið þar sem hafi verið hugað sérstaklega að aðgengismálum en það sýni að alltaf má gera betur. Reykjavíkurborg muni fá til starfa aðgengisfulltrúa um áramótin sem mun fara yfir þessi mál í öllum opinberu byggingum, þar með talið húsnæði sem hýsir starfsemi tímabundið svo sem bráðabirgðahúsnæði sem er nýtt þegar kennsla er flutt vegna framkvæmda.