Hagrænt mat á þjónustu vistkerfa í Elliðaárdal

Umhverfi

""

Fjögur nýsköpunarverkefni voru unnin á umhverfis- og skipulagssviði sumarið 2014. Fjórir háskólanemar með bakgrunn í viðeigandi faggreinum voru í kjölfarið ráðnir til starfa og unnu ötullega að verkefnunum yfir sumarið undir leiðsögn Hrannar Hrafnsdóttur og Snorra Sigurðssonar sem eru verkefnastjórar á umhverfis- og skipulagssviði. 

Í rannsóknarverkefni Katrínar Svönu Eyþórsdóttur vegna hagræns mats á þjónustu vistkerfa í Elliðaárdal var notkun svæðisins könnuð í samhengi við sögu og náttúru. Tilgangur verkefnisins var að þróa aðferðafræði sem hægt er að nota við mat á öðrum svæðum og leitast við að svara: Hvaða þjónusta vistkerfa á sér stað í Elliðaárdal? Hvaða ábata skilar þessi þjónusta til samfélagsins?

Notaðar voru aðferðir umhverfishagfræði og vistkerfisnálgunar við rannsóknina þegar skoðaðir voru flokkar þjónustu náttúrunnar; framfærsluþjónusta, stuðnings- og viðhaldsþjónusta og menningarleg þjónusta.

Stuðst var við fyrri rannsóknir heildstæðs mats á vistkerfisþjónustu í Heiðmörk en einnig var framkvæmd spurningakönnun vegna skilyrts verðmætamats á menningarlegri þjónustu. Í könnuninni var spurt um greiðsluvilja þátttakenda til að greiða í ímyndaðan verndarsjóð fyrir Elliðaárdal og verðmætamatið m.a. byggt á þeim niðurstöðum.

Aðferðafræði skilyrts verðmætamats er ný af nálinni á Íslandi en getur verið mikilvægt verkfæri til að auka skilning og meðvitund um mikilvægi þjónustu náttúrunnar. Sá skilningur er þýðingarmikill undanfari þess að aðferðum vistkerfisnálgunar verði beitt við stefnumótun og ákvarðanatöku um landnotkun.

Augljóst er að menningarlegt virði Elliðaárdals er mikið ef marka má niðurstöðu könnunarinnar. Niðurstöður á virði vistkerfisþjónustu er ekki einungis fjárhagslegt virði heldur einnig einhvers konar myndlíking eða staðfesting á  mikilvægi þeirrar þjónustu sem náttúran veitir. Leiðbeinandi þessa verkefnis var Hrönn Hrafnsdóttir umhverfishagfræðingur hjá umhverfis- og skipulagssviði. 

Skýrsla um hagrænt mat á þjónustu.