Góður gangur í Betri hverfum

Betri hverfi Kosningar

""

Framkvæmdir við verkefni sem íbúar völdu í hverfakosningum í  mars undir merkjum „Betri hverfa“ ganga vel.  Dagur B. Eggertsson borgarstjóri leit við á verkstað í morgun í Árbæ, en þar var verið að ljúka frágangi við hringtorg á gatnamótum Bæjarbrautar og Hraunbæjar.  Aðgengi gangandi hefur verið bætt þar til mikilla muna og í morgun viðraði loksins vel til steypuvinnu. Að sögn Þorkels Heiðarssonar formanns hverfisráðs Árbæjar er mikil ánægja í hverfinu með framkvæmdirnar en kostnaður við þær var áætlaður 15 milljónir.

Fjölbreytni í hugmyndum íbúa var mikil en þær miða þó allar að því að bæta umhverfi og auka lífsgæði í hverfunum. Leikvellir, sleðabrekkur, frisbígolfvellir, upplýsingaskilti, gróðursetning, áningastaðir og gönguleiðir eru meðal þeirra verkefna sem íbúar kusu til framkvæmdar í íbúakosningum í mars.

Hvað vilt þú að verði gert á næsta ári?

Í dag var opnað fyrir innsetningu á nýjum hugmyndum fyrir verkefni Betri hverfa 2015 og er hægt að skila inn hugmyndum í einn mánuð eða til 7. nóvember.  Slóðin er einfaldlega www.betrireykjavik.is.

Betri hverfi 2015 er samráðsverkefni íbúa og stjórnsýslu um forgangsröðun og úthlutun fjármagns til smærri nýframkvæmda- og viðhaldsverkefna í hverfum Reykjavíkurborgar.

Hvað var gert á þessu ári?

Alls voru 78 verkefni kosin til framkvæmda í hverfakosningum. Íbúar sendu hins vegar inn  400 hugmyndir á vefinn Betri Reykjavík.  Framkvæmdum við flest þessara verkefna er lokið eða þau eru á lokasprettinum. Nokkur stærri verkefni eru enn á undirbúningsstigi, þ.á.m. er leikvöllur á Klambratúni, stígur á milli Laugardalslaugar og tjaldsvæðisins í Laugardal og ævintýragarður í Gufunesi.