Borgin rekin með 8,4 milljarða hagnaði

Fjármál

""

Ársreikningur Reykjavíkurborgar fyrir árið 2013 var samþykktur í borgarstjórn í dag, 13. maí.  Samstæða Reykjavíkurborgar var rekin með 8,4 milljarða hagnaði og skuldir voru greiddar niður um 35 milljarða á síðasta ári.

Rekstrarniðurstaða samstæðu Reykjavíkurborgar, A og B hluta, var jákvæð um tæpa 8,4 milljarða króna en áætlun gerði ráð fyrir jákvæðri niðurstöðu um 7,7 milljarða króna. Rekstrarniðurstaðan er því 711 m.kr. betri en gert var ráð fyrir.  Helstu ástæður má rekja annars vegar til gjaldfærslu lífeyrisskuldbindinga hjá A-hluta og hins vegar til áhrifa fjármagnsgjalda hjá Orkuveitu Reykjavíkur. Þar vegur þyngst gengismunur og verðmæti innbyggðra afleiða.  Rekstrarniðurstaða fyrir fjármagnsliði var jákvæð um tæpa 23,6 m.kr sem er rúmum 4 milljörðum króna betri niðurstaða en áætlun gerði ráð fyrir.

Skuldir samstæðunnar lækkuðu um 35 milljarða króna á tímabilinu. Þar af lækkuðu langtímaskuldir um rúma 29 milljarða króna, voru tæpir 260 milljarðar króna í ársbyrjun en stóðu í 231,5 milljarði í árslok.

Niðurstaðan sýnir að rekstur samstæðunnar er að styrkjast umtalsvert en handbært fé samstæðunnar nam 21,2 milljörðum króna í árslok.

Eigið fé samstæðunnar styrkist einnig umtalsvert, það nam 192 milljörðum króna í lok árs en var tæpir 148 milljarða í byrjun ársins 2013.

Þegar horft er á samstæðuna munar mest um Plan Orkuveitu Reykjavíkur en aðgerðaáætlun hennar hefur gengið fyllilega upp. Mikilvægt er að OR haldi áfram að greiða niður skuldir og því þarf sjóðstreymi og veltufé frá rekstri að vera hátt áfram.

Rekstrarniðurstaða A-hluta var jákvæð um rúma 3 milljarða króna, en undir hann heyrir allur almennur rekstur og lífeyrisskuldbindingar borgarinnar.

Fjárhagslegur styrkur A-hluta borgarsjóðs er mikill hvort sem litið er til eiginfjárstöðu eða hefðbundinna skuldaþekjuhlutfalla.
Rekstur Reykjavíkurborgar skiptist í A-hluta og B-hluta. Til A-hluta telst starfsemi sem að hluta eða öllu leyti er fjármögnuð með skatttekjum. Um er að ræða Aðalsjóð, þ.e. rekstur fagsviða, og Eignasjóð. Til B-hluta teljast fjárhagslega sjálfstæð fyrirtæki sem að hálfu eða meirihluta eru í eigu borgarinnar, en rekstur þeirra er að stofni til fjármagnaður með þjónustutekjum. Fyrirtækin eru: Bílastæðasjóður Reykjavíkur, Faxaflóahafnir sf., Félagsbústaðir hf., Íþrótta- og sýningahöllin hf., Malbikunarstöðin Höfði hf., Orkuveita Reykjavíkur, Skíðasvæði höfuðborgarsvæðisins, Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins bs., Sorpa bs. og Strætó bs, auk Aflvaka hf og Jörundar ehf.
 

Ársreikningur Reykjavíkurborgar 2013 - myndræn framsetning.

Ársreikningur Reykjavíkurborgar 2013 í heild sinni.