Hádegisfuglinn – Tilhugalíf á Tjörninni

""

Reykjavík – iðandi af lífi kynnir til sögunnar nýjan fræðsluviðburð, Hádegisfuglinn, sem verður á dagskrá mánaðarlega í hádeginu fram að jólum. Um er að ræða fuglaskoðun á léttu nótunum í Miðborg Reykjavíkur.

Fyrsti Hádegisfuglinn mun fara fram núna á fimmtudaginn, 17. október, kl 12:00 á hádegi, fyrir framan Iðnó við Tjörnina. Haustið er frábær tími til að fylgjast með fuglunum á Tjörninni. Þá eru flestir veturgestirnir mættir t.d. álftir og grágæsir.

Skemmtilegast er þó að fylgja með öndunum á þessum árstíma, einkum stokköndinni því þá er tilhugalífið í hámæli. Stokkandasteggirnir skarta sínu fegursta og leika ýmsar kúnstir til að draga kollurnar á tálar en þar sem kynjahlutföllin eru ekki steggjunum í hag getur örvæntingin skapað hádramatískar aðstæður. Allt gerist þetta fyrir augunum á oftar en ekki grunlausum vegfarendum í Miðborginni.

Snorri Sigurðsson fuglafræðingur stillir upp sjónauka og verður með létta fræðslu fyrir áhugasama. Gestir eru hvattir til að taka með sér kíkinn. Sjá nánar á Facebook síðu Reykjavík – iðandi af lífi www.facebook.com/reykjavikidandi.

Hádegisfuglinn mun einnig verða á dagskrá 14. nóvember og 12. desember á sama tíma en mögulega verður staðsetningin önnur, sjá nánar síðar.