Þorri borgarstarfsmanna ánægður í starfi

Velferð Mannlíf

""

Ný starfsmannakönnun hjá Reykjavíkurborg leiðir í ljós þá meginniðurstöðu að 85% starfsmanna borgarinnar eru ánægðir í starfi og líður vel í vinnunni og er það hækkun um eitt prósentustig frá árinu 2011. 

Helstu breytur sem auka starfsánægju eru þættir eins og viðurkenning, hvatning  og metnaður í starfi, en þeir hækkuðu á milli kannana. 78% starfsfólks telja að starf þeirra sé metið að verðleikum og fleiri fá hrós hjá næsta yfirmanni eða 70% starfsmanna.

Þá leiðir könnunin í ljós að hlutfall starfsfólks sem fer í starfsþróunarsamtöl hefur aukist úr 58% á árinu 2011 í 66% og að sama skapi finnst fleirum að samtalið hafi komið að gagni. 87% starfsmanna töldu sig þekkja vel markmið og stefnu vinnustaðarins og tæp 80% töldu sig ánægða með markmiðin.

Þegar einstök svið og einstakir þættir eru skoðaðir kemur fram að starfsánægjan er mest hjá skóla- og frístundasviði, með gildið 8,0 samanborið við 7,8 að meðaltali hjá Reykjavíkurborg. Yngstu og elstu starfsmennirnir eru ánægðastir í starfi, stjórnendur eru ánægðari en aðrir og þeir sem hafa skemmri starfstíma en 3 ár og lengri en 20 ár eru ánægðari en hinir.

Skóla- og frístundasvið kemur einnig best út þegar spurt er um tilgang starfsins, hvort hæfni nýtist vel í starfi og hvort starfsfólk sé stolt af starfi sínu. Þar er gildið 8,4 samanborið við 8,2 að meðaltali hjá borginni. 

Upplýsingaflæði stendur í stað á milli mælinga, en einungis 61% starfsfólks telur upplýsingastreymi á sínum vinnustað gott og 70% segjast fá nauðsynlegar upplýsingar sem snerta starfið sitt og/eða vinnustaðinn. Þá leiðir könnunin í ljós að bæta þarf vinnuaðstöðu starfsfólks, 65% telja vinnuaðstöðu sína góða, einu prósentustigi minna en á árinu 2011, og 72% telja sig hafa aðgang að þeim gögnum og tækjum sem þeir þurfa sem einnig er lækkun frá fyrri könnun.

Þegar spurt er um ímynd vinnustaðarins skorar menningar- og ferðamálasvið hæst með gildið 8,6, samanborið við 7,9 meðaltal hjá borginni allri. 

Fleiri borgarstarfsmenn segjast nú upplifa jafnvægi milli starfs og einkalífs, eða 80% starfsfólks og er það tveimur prósentustigum hærra hlutfall en á árinu 2011. Fleiri segjast segjast einnig hafa sveigjanleika til að samræma starf og einkalíf, eða 80% miðað við 77% fyrir tveimur árum. Starfsfólk skóla- og frístundasviðs kemur þar best út og ÍTR síst.

Þegar spurt er um vinnuálag eru niðurstöðurnar ívið betri en árið 2011, en þá töldu 58% að álag í starfi væri of mikið þegar á heildina er litið, nú er þetta hlutfall 55%. Nú segjast 56% að vinnuálag hafi aukist á síðustu 12 mánuðum - en árið 2011 sögðust 63% upplifa það.

Hlutfall þeirra sem sjá sig áfram í starfi sínu eftir tvö ár lækkar frá árinu 2011 úr 59% í 57% og sama hlutfall og í síðustu mælingu segist hugsa oft um að hætta í núverandi starfi, eða 22%.

Könnunin var gerð meðal borgarstarfsmanna dagana 18. apríl til 22. maí 2013. Hún náði til 7.076 starfsmanna eða til allra ótímabundið ráðinna stafsmanna og flestra tímabundið ráðinna starfsmanna. Alls bárust 4.835 svör og var svarhlutfallið því 68%.

Sjá niðurstöður könnunarinnar.