Tillögur að starfsleyfum í auglýsingu

Heilbrigðiseftirlit

Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur hefur sett tvær tillögur að starfsleyfum í auglýsingu, starfsleyfi HB Granda hf. og SORPU bs. Starfsleyfi HB Granda er fyrir frystihús að Norðurgarði 1 og heimilar vinnslu á allt að 30.000 tonnum af óslægðum fiski á ári. Starfsleyfi SORPU er fyrir móttökustöð við Gufunesveg 10, þar sem fram fer flokkun og böggun úrgangs. Starfsleyfið gildir fyrir móttöku og meðferð úrgangsefna allt að 150.000 tonnum á ári. 

Rétt til að gera athugasemdir við tillögur að starfsleyfum hafa eftirtaldir aðilar:

1. Sá sem sótt hefur um starfsleyfi svo og forsvarsmenn og starfsmenn tengdrar eða nálægrar starfsemi.

2. Íbúar þess svæðis sem ætla má að geti orðið fyrir óþægindum vegna mengunar.

3. Opinberir aðilar, félög og aðrir þeir sem málið varðar. 

Athugasemdir skulu vera skriflegar og sendast Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur, umhverfis- og skipulagssviði, Borgartúni 12-14, 105 Reykjavík, í síðasta lagi 11. janúar 2013 fyrir starfsleyfi SORPU og í síðasta lagi 29. janúar 2013 fyrir starfsleyfi HB Granda.

Tillaga að starfsleyfi HB Granda hf.

Tillaga að starfsleyfi SORPU bs.