Hverfisskipulag | City of Reykjavík

Hverfisskipulag er tegund deiliskipulags fyrir gróin hverfi – þ.e.a.s. skipulagsáætlun fyrir fastmótaða byggð sem nær yfir stærra landssvæði en hefðbundið deiliskipulag.

Nýtt hverfisskipulag mun sameina ólíkar deiliskipulagsáætlanir innan hverfanna í eitt heildarskipulag sem einfaldar til muna gerð og eftirfylgni áætlana sem varða skipulag, uppbyggingu og framtíðarsýn hvers hverfis.

 

Helstu markmið hverfisskipulagsins eru að:

 • Stuðla að sjálfbærari, vistvænni  og heilnæmari hverfum.
 • Þétta byggð og auka íbúafjölda til að styðja við fjölbreytta þjónustu í göngufæri innan hverfanna og nýta innviði betur.
 • Einfalda skilmálagerð (skipulags- og byggingarheimildir) fyrir gróna byggð í hverfum borgarinnar.
 • Þróa skipulagstæki sem gerir skipulagsyfirvöld heimilt að skilgreina uppbyggingu og/eða breytingar á gróinni byggð þar sem kominn er tími á endurnýjun eða þróun til að uppfylla nútímaþarfir varðandi t.d. svalir, lyftur, kvisti, sorpflokkun o.s.frv.
0
0

 

 

Reykjavik skiptist í tíu borgarhluta og innan þeirra eru alls 29 hverfi sem hvert fær sitt eigið hverfisskipulag.

0
0
Samráð við borgarbúa
Mikil áhersla er lögð á þátttöku íbúa og hagsmunaaðila við gerð hverfisskipulags

Liður í því að virkja íbúa og hagsmunaaðila í hverfisskipulagsgerðina eru rýnihópar úr hverfunum sem Gallup stýrir. Þar er leitað álits íbúa á aldrinum 20 til 85 ára á skipulagshugmyndum og framtíðarsýn ráðgjafahópanna. Niðurstöðurnar eru notaðar til að betrumbæta hugmyndirnar áður en þær eru kynntar á íbúafundum.

Íbúafundir eru haldnir innan hvers hverfis þar sem skipulagshugmyndir ráðgjafanna eru kynntar og íbúum boðið til samtals um framtíðarsýn hverfanna. Mikilvægur þáttur í samráðsferlinu eru líkön af hverfunum sem nemendur í grunnskólum borgarinnar byggja. Líkönin eru hluti af samráðsaðferð sem kölluð er skapandi samráð.

 

0
1
Hugmyndir og athugasemdir íbúa skráðar í miðasjá

Í gegnum miðakerfi skapandi samráðs, sem tekur til helstu málaflokka sem skipta máli við skipulag hverfanna, gefst gestum á íbúafundum kostur á að bregðast við skipulagshugmyndum og koma á framfæri ábendingum með því að leggja miða með hugmyndum eða athugasemdum á viðeigandi stað á líkönunum.

Í valmyndinni efst á þessari síðu, í svokallaðri miðasjá, má sjá allar hugmyndir og athugasemdir sem skráðar hafa verið í gagnagrunninn á íbúafundum.

0
0
Ferli hverfisskipulags
Hvert hverfisskipulag tekur 18-24 mánuði í vinnslu

Gerð hverfisskipulags fyrir heila borg er gríðarlega umfangsmikið og flókið verkefni og er því skipt í sex skilgreinda verkþætti. Hvert hverfisskipulag er unnið af þverfaglegum ráðgjafahóp arkitekta, landslagsarkitekta, skipulagsfræðinga og verkfræðinga og tekur u.þ.b. 18-24 mánuði í vinnslu.

Fyrsti verkþáttur í hverju hverfisskipulagi er að útbúa verklýsingu þar sem skipulagsvinnunni er lýst. Næsti verkþáttur er vinna við stefnumótun og framtíðarsýn fyrir hvert hverfi, sem er síðan kynnt í skipulögðu samráðsferli. Þar á eftir tekur við tillögu- og skilmálagerð, en síðasti verkþátturinn er kynningar- og samþykktarferli.

Verkþættir hverfisskipulags:

 1. Verklýsing
 2. Stefnumótun
 3. Samráð
 4. Skilmálagerð
 5. Tillögugerð
 6. Kynningar- og samþykktarferli
0
1
Gátlisti um visthæfi byggðar
Sjö lykilstoðir hverfisskipulags

Við skipulagsgerð þarf að huga vel að áhrifum viðkomandi skipulagsáætlunar á íbúa og nærumhverfi þeirra og kortleggja styrkleika og veikleika hvers hverfis með tilliti til ýmissa þátta. 

Við upphaf vinnu við hverfisskipulag er stuðst við gátlista til að meta visthæfi hvers borgarhluta og hverfanna innan þeirra. Gátlistinn byggir á sjö lykilstoðum sem meta visthæfi hvers hverfis og eru leiðarljós hverfisskiplagsvinnunnar á öllum stigum – allt frá vinnu við verklýsingu í upphafi og til fullunninnar hverfisskipulagstillögu sem send er til kynningar og samþykktar.

Lykilstoðir hverfisskipulags:

 • Samfélag
 • Gæði byggðar
 • Samgöngur
 • Vistkerfi og minjar
 • Orka og auðlindir
 • Mannvirki
 • Náttúruvá
0
1

Samfélag

Við skipulagningu sjálfbærra og vistvænna hverfa þarf að huga að samfélagslegri gerð þeirra, t.d. aldurssamsetningu og íbúaþróun, framboði á mismunandi tegundum húsnæðis, öryggi, lýðheilsumálum og framboði á verslun, þjónustu og atvinnustarfsemi innan hverfanna.

Gæði byggðar

Hið manngerða umhverfi skiptir sköpum við skipulag hverfa, ekki síst aðlaðandi og þægileg almennings- og borgarrými sem setja fólk í öndvegi, styðja fjölbreytta þjónustu og vistvæna ferðamáta innan hverfanna og auka þannig sjálfbærni hverfanna og lífsgæði íbúa.

Samgöngur

Almenningssamgöngur og gangandi og hjólandi umferð er höfð í öndvegi í allri skipulagsgerð í Reykjavík til að auðvelda íbúum að nýta sér vistvænni ferðamáta.

Vistkerfi og minjar

Fjölbreytt lífríki, heilbrigð vistkerfi og útivistarsvæði í göngufjarlægð stuðla að bættum lífsgæðum og lýðheilsu borgarbúa og verndun menningarminja styrkir ímynd og byggðarsögu hverfanna.

Orka og auðlindir

Aðgangur að endurnýjanlegri orku og sjálfbær nýting auðlinda er nauðsynlegur hluti af nútíma borgarsamfélagi. Bætt nýting lands styður við markmið um sjálfbær og vistvæn hverfi og aukin endurvinnsla kallar á gott aðgengi að grenndar- og endurvinnslustöðvum.

Mannvirki

Val á byggingarefnum og tæknilegum útfærslum getur stuðlað að bættu visthæfi bygginga og ýtt undir framþróun í vistvænni byggingartækni. Góð einangrun bygginga hjálpar til við að draga úr orkuþörf ásamt því að bæta hljóðvist í hýbílum fólks.

Náttúruvá

Taka þarf tillit til ýmissa þátta til að lágmarka hættu af völdum náttúruhamfara sem framast er, t.d. af völdum flóðahættu, hækkunar sjávarstöðu og jarðhræringa.

0
0

Is this page useful or is something missing?