Borgarstjórn - Borgarstjórn 7.5.2024

Borgarstjórn

Ár 2024, þriðjudaginn 7. maí, var haldinn fundur í Borgarstjórn Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 12:08. Voru þá komnir til fundar, auk borgarstjóra, eftirtaldir borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar: Magnea Gná Jóhannsdóttir, Alexandra Briem, Andrea Helgadóttir, Árelía Eydís Guðmundsdóttir, Dagur B. Eggertsson, Dóra Björt Guðjónsdóttir, Friðjón R. Friðjónsson, Helgi Áss Grétarsson, Hildur Björnsdóttir, Hjálmar Sveinsson, Kjartan Magnússon, Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir, Líf Magneudóttir, Magnús Davíð Norðdahl, Marta Guðjónsdóttir, Pawel Bartoszek, Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir, Sabine Leskopf, Sanna Magdalena Mörtudóttir, Skúli Helgason og Þorvaldur Daníelsson. Borgarfulltrúinn Heiða Björg Hilmisdóttir tók sæti á fundinum með rafrænum hætti með vísan til heimildar í 2. málsl. 1. mgr. 13. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar.
Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

  1. Lagður fram að nýju ársreikningur A-hluta og samstæðu Reykjavíkurborgar 2023, ódags., sbr. 1. lið fundargerðar borgarráðs frá 2. maí 2024, ásamt bréfi fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 2. maí 2024. Einnig er lögð fram að nýju skýrsla fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 2. maí 2024, greinargerð fagsviða og sjóða A-hluta og greinargerð B-hluta fyrirtækja, dags. 2. maí 2024, verkstöðuskýrsla nýframkvæmda, ódags., ábyrgða- og skuldbindingayfirlit, dags. 11. apríl 2024, og greinargerð um innleiðingu kynjaðrar fjárhags- og starfsáætlunar hjá Reykjavíkurborg, ódags., ásamt yfirlýsingu um stjórnarhætti og ófjárhagslegar upplýsingar, dags. 11. apríl 2024. Jafnframt er lögð fram endurskoðunarskýrsla Grant Thornton vegna endurskoðunar ársreiknings Reykjavíkurborgar 2023, dags. 2. maí 2024, og umsögn endurskoðunarnefndar Reykjavíkurborgar um ársreikning Reykjavíkurborgar 2023, dags. 29. apríl 2024.

    -    Kl. 13:20 víkur Heiða Björg Hilmisdóttir af fundinum og Guðný Maja Riba tekur sæti.
    -    Kl. 15:05 víkur Pawel Bartoszek af fundinum og Jóhanna Dýrunn Jónsdóttir tekur sæti.

    Samþykkt að vísa ársreikningi Reykjavíkurborgar 2023 til síðari umræðu sem fram fer á fundi borgarstjórnar 14. maí nk. FAS24010051

    Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Ársreikningur Reykjavíkurborgar 2023 staðfestir að áætlanir meirihlutans um jákvæðan viðsnúning í rekstri borgarinnar eru að ganga eftir þrátt fyrir erfitt efnahagslegt umhverfi og mikinn þrýsting á innviði vegna fjölgunar borgarbúa. Með samstilltu átaki og aga í útgjöldum hefur ríflega 15 milljarða halli farið niður í tæplega 5 milljarða á A-hluta milli ára sem er afar ánægjulegt. Það er milljarði betra en upphafleg fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir. Niðurstaðan hefði verið ennþá betri ef vanfjármögnun á málaflokki fatlaðra og frávik í fjármagnslið Orkuveitunnar hefðu ekki komið til. Verðbólga setur einnig svip sinn á fjármagnslið ársreikningsins. Reykjavíkurborg, ásamt ríki og öðrum sveitarfélögum, liðkaði fyrir langtíma kjarasamningum sem eru mikilvægur liður í að ná niður verðbólgu og vaxtastigi á næstu misserum. Framundan eru stórar fjárfestingar í innviðum, samgöngum, skólahúsnæði og uppbyggingu íbúða í borginni. Meirihlutinn ætlar sér að halda áfram á þessari braut og koma jafnvægi á rekstur borgarinnar til þess að standa áfram undir þeirri margvíslegu og mikilvægu þjónustu sem borgarbúar treysta á.

    Borgarfulltrúar Sjálfstæðiflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Ársreikningur Reykjavíkurborgar 2023 ber fjárhag borgarinnar ekki fagurt vitni. Skuldir halda áfram að vaxa en skuldir samstæðu aukast um 50 milljarða milli ára, þar af aukast skuldir borgarsjóðs um 24 milljarða. Rekstrarniðurstaða samstæðunnar var 13 milljörðum króna lakari en áætlun gerði ráð fyrir og rekstrarhalli borgarsjóðs nam fimm milljörðum króna. Rekstrarútgjöld fara langt umfram fjárheimildir en viðsnúning í rekstri frá fyrra ári má nær allan rekja til aukinna skatttekna, jöfnunarsjóðstekna og arðgreiðslna frá bæði Orkuveitu Reykjavíkur og Faxaflóahöfnum. Vandi borgarinnar er því ekki tekjuvandi, heldur útgjaldavandi. Reksturinn er ósjálfbær og ekki unnt að standa undir grunnþjónustu við íbúanna án einskiptistekna af eignasölu. Það er alvarleg staða í rekstri sveitarfélags.

    Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands leggja fram svohljóðandi bókun:

    Ársreikningur Reykjavíkurborgar fyrir árið 2023 sýnir að áætlanir borgaryfirvalda ganga hvorki upp né taka mið af veruleikanum. Vanfjármögnun grunnþjónustu er kostnaðarsöm fyrir rekstur borgarinnar, líðan starfsfólks og íbúa borgarinnar. Hár kostnaður hlýst af því að draga útgjöld saman í niðursveiflum eða verðbólgu, sjá má slæmar afleiðingar viðhaldsleysis í skólabyggingum og þess óhagræðis sem fylgir í kjölfarið t.a.m. þegar starfað er á mörgum starfsstöðvum á meðan unnið er að viðhaldi og endurbótum. Kostnaður vegna langtímaveikinda í skóla- og frístundastarfi var um 500 m.kr. umfram áætlanir. Ýmsar ástæður geta legið að baki langtímaveikindum en slæmar starfsaðstæður ýta undir slíkt. Nauðsynlegt er að tryggja góðar starfsaðstæður til að sporna gegn veikindum sem tengjast vondri umhverfisvist eða álagi. Sækja þarf fjármagn til þeirra sem það hafa með því að leggja útsvar á fjármagnstekjur en slíkt er ekki hægt án þrýstings á löggjafann. Lækkun fasteignaskatts á atvinnuhúsnæði árið 2021 leiddi til þess að borgarsjóður verður af um hálfum milljarði ár hvert. Efla þarf tekjustofna borgarinnar en á sama tíma þarf að ráðstafa fjármagni með réttlátum hætti, húsnæðisuppbygging á félagslegum grunni ætti þar að vera aðaláhersla. Af þeim 1.550 nýjum íbúðum sem var áætlað að færu í uppbyggingu var aðeins byrjað að byggja 690 nýjar íbúðir.

    Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Afkoma A-hluta Reykjavíkurborgar á árinu 2023 hefur skánað en er enn óásættanleg. Rekstrarreikningur er með 5,0 milljarða halla. Veltufjárhlutfall lækkar úr 1,1 á árinu 2022 niður í 0,94 á árinu 2023. Ástæðan er sú að lausaskuldir hafa hækkað um 6,5 milljarða milli ára eða um 20%. Veltufé frá rekstri er 11,5 milljarðar eða 6,5% af heildartekjum. Þrátt fyrir hækkun frá árinu 2022 er það enn of lágt þar sem afborganir lána og leiguskulda eru samtals 6,8 milljarðar eða um 60% veltufjár frá rekstri. Fastar afborganir hafa hækkað um 33% milli ára sem er afleiðing af sívaxandi lántöku liðinna ára. Á næsta ári verða afborganir langtímaskulda og leiguskulda tæpir 13 milljarðar. Ný langtímalán á árinu voru tæpur 21 milljarður, þungi fastra afborgana lána mun fara hækkandi. Reksturinn skilar einungis 4,7 milljörðum upp í heildarfjárfestingar ársins sem eru rúmir 23 milljarðar eða rétt um 20%. Rekstur A-hluta þarf að batna verulega til að ná ásættanlegu jafnvægi. Af B-hluta fyrirtækjum, þá er það óskiljanlegt að meirihluti Borgarstjórnar Reykjavíkur skuli enn færa matsbreytingar fasteigna sem tekjur hjá Félagsbústöðum þegar það liggur í augum uppi að eignir félagsins verða aldrei seldar sem neinu nemur og matsbreytingar fjárfestingareigna eru því loftkrónur en ekki raunkrónur.

    Borgarfulltrúi Vinstri grænna leggur fram svohljóðandi bókun:

    Ársreikningur Reykjavíkur 2023 er vitnisburður um það sem er liðið en líka fyrirboði um það sem er í vændum. Hann segir okkur hvernig Reykjavíkurborg er í stakk búin til að sinna grunnskyldum sínum, ná pólitískum markmiðum sínum og takast á við hið óvænta. Ekki hefur skapast mikið ráðrúm í rekstrinum þrátt fyrir tekjuaukningu. Að sama skapi eykst skuldsetning borgarinnar jafnt og þétt. Það kann ekki góðri lukku að stýra. Borgarfulltrúi Vinstri grænna getur talið mörg atriði sem betur hefðu mátt fara á síðasta ári en það sem skiptir mestu máli núna er að fá svör og raunhæfar áætlanir um hvernig megi ná viðspyrnu í rekstri Reykjavíkur. Það eru hins vegar blikur á lofti ef fram heldur sem horfir. Reksturinn er ekki stöndugur og vandséð er hvernig borgin getur fjármagnað sig á almennilegum kjörum. Með þennan skuldastabba gæti orðið langt þangað til að það skapast svigrúm fyrir borgina að ná sjálfbærnimarkmiðum sínum í rekstrinum.

    Fylgigögn

  2. Lögð fram að nýju tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um afléttingu trúnaðar á skýrslu innri endurskoðunar varðandi Orkuveitu Reykjavíkur sbr. 6. lið fundargerð borgarstjórnar dags. 23. apríl 2024.
    Samþykkt með 13 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar gegn sex atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins að fresta málinu.
    Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins og Vinstri grænna sitja hjá við afgreiðslu málsins. MSS24020040

    Fylgigögn

  3. Lagt er til að Ásta Þórdís Skjalddal Guðjónsdóttir taki sæti í mannréttinda- og ofbeldisvarnarráði í stað Halldóru J. Hafsteinsdóttur.
    Samþykkt. MSS22060044

  4. Lagt er til að Ásta Þórdís Skjalddal Guðjónsdóttir taki sæti í skóla- og frístundaráði í stað Halldóru J. Hafsteinsdóttur.
    Samþykkt. MSS22060048

  5. Lagt er til að Dóra Björt Guðjónsdóttir taki sæti í stjórn Strætó bs. í stað Alexöndru Briem.
    Samþykkt. MSS22060153

  6. Lögð fram fundargerð borgarráðs frá 2. maí 2024. MSS24010001

    -    Kl. 16:00 víkur Hildur Björnsdóttir af fundinum og Sandra Hlíf Ocares tekur sæti.
    -    Kl. 16:40 víkur Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir af fundinum og Birna Hafstein tekur sæti.

    7. liður fundargerðar borgarráðs; gjaldskrár vegna þjónustu við börn og barnafjölskyldur, er samþykktur. FAS24040048
    16. liður fundargerðar borgarráðs; Víðidalur – afnotasamningur, er samþykktur með 20 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata, Viðreisnar og Vinstri grænna gegn tveimur atkvæðum borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands. FAS23100006
    Borgarfulltrúi Flokks fólksins situr hjá við afgreiðslu málsins. 
    17. liður fundargerðar borgarráðs; innkaupareglur Reykjavíkurborgar, er samþykktur.
    Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands og Flokks fólksins sitja hjá við afgreiðslu málsins. FAS24040049
    18. liður fundargerðar borgarráðs; tillögur um skil á Elliðaárdal og endurheimt náttúrugæða. er samþykktur með 14 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata, Viðreisnar og Vinstri grænna gegn sex atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins.
    Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands og Flokks fólksins sitja hjá við afgreiðslu málsins. MSS24020040
    41. liður fundargerðar borgarráðs; tillaga borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um úttekt innri endurskoðunar á aðdraganda og fyrirkomulagi samningaviðræðna Reykjavíkurborgar við rekstraraðila og lóðarhafa eldsneytisstöðva í Reykjavík. MSS24050004

    Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi breytingartillögu:

    Borgarstjórn samþykkir að fela innri endurskoðun Reykjavíkurborgar að framkvæma úttekt á aðdraganda og fyrirkomulagi samningaviðræðna Reykjavíkurborgar við rekstraraðila og lóðarhafa eldsneytisstöðva í Reykjavík sem fram fóru í kjölfar samþykktar borgarráðs um fækkun bensínstöðva í borginni, frá 9. maí 2019. Jafnframt verði samningar við rekstraraðila og lóðarhafa eldsneytisstöðva sem samþykktir voru á fundum borgarráðs teknir til skoðunar. Meðal annars verði kannað hvort málefnaleg sjónarmið hafi legið til grundvallar samningunum og hvort hagsmunir borgarinnar hafi verið nægjanlega tryggðir við samningsgerðina.

    Samþykkt. 
    Tillagan samþykkt svo breytt. 

    Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands leggja fram svohljóðandi bókun undir 16. lið fundargerðarinnar:

    Síðan sumarið 2023 hafa langtímaíbúar í hjólhýsum og húsbílum sem var úthýst af tjaldstæðinu í Laugardal beðið eftir því að komast í trygga og mannsæmandi aðstöðu. Það átti að búa þeim aðstöðu í Víðidal en þau hafa dvalið á iðnaðarsvæði við Sævarhöfða í 11 mánuði án grunnþátta. Ekki er að sjá á þeim afnotasamningi við hestamannafélagið Fák sem er nú verið að leggja fram að þar sé að finna nein skilyrði um að hjólabúar fái afnot af svæðinu þó um það hafi verið rætt. Sósíalistar krefjast þess fyrir hönd hjólabúa að langtímastæði verði fundið nú þegar. Fulltrúi Sósíalista greiðir atkvæði gegn málinu m.a. vegna þess að ekki er búið að vinna að langtímastæði eins og fyrirætlanir stóðu til um.

    Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 7. lið fundargerðarinnar:

    Flokkur fólksins hefur mótmælt harðlega gjaldskrárhækkunum síðustu ár sem verst hafa komið niður á bágstöddum. Gjaldskrárhækkanir hafa auk þess farið út í verðlagið og ekki hjálpað til að ná stöðugleika í fjármálum. Þó þessu sé vissulega fagnað hefði líka verið gaman að sjá borgina taka frumkvæðið þegar ljóst var að verðbólga var að fara úr böndum. Borgarráð sameinaðist fyrir skemmstu, að mestu, um ályktun um að Reykjavíkurborg vilji greiða fyrir gerð kjarasamninga til fjögurra ára m.a. með því að halda aftur af hækkun gjaldskráa sem snúa að börnum og barnafjölskyldum. Fulltrúi Flokks fólksins studdi þessa tillögu. Nú hefur prósentan verið skilgreind og skulu gjaldskrár lækka um 2,0% að jafnaði frá og með 1. júní 2024 sem felur það í sér að viðeigandi gjaldskrár hækki ekki umfram 3,5% á árinu 2024 miðað við árið 2023. Auðvitað hefði verið hægt að gera betur hér. Í rauninni getur Reykjavíkurborg gert hvað sem er í þessum efnum. Hér er einungis um tilmæli að ræða og er því ekkert að vanbúnaði að ganga lengra þegar um er að ræða þjónustu við börn og barnafjölskyldur.

    Fylgigögn

  7. Lögð fram fundargerð forsætisnefndar frá 3. maí 2024, menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs frá 24. og 26. apríl 2024, skóla- og frístundaráðs frá 22. apríl 2024, tvær fundargerðir stafræns ráðs frá 24. apríl 2024 og umhverfis- og skipulagsráðs frá 24. apríl 2024.

    2. liður fundargerðar forsætisnefndar frá 3. maí; ný samþykkt fyrir innkaupa- og framkvæmdaráð, er samþykktur. 
    Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands og Flokks fólksins sitja hjá við afgreiðslu málsins. MSS24010034

    Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 10. lið fundargerðar skóla- og frístundaráðs frá 22. apríl og 3. lið fundargerðar stafræns ráð frá 24. apríl:

    10. liður fundargerðar skóla- og frístundaráðs frá 22. apríl: Svar hefur borist við hálfs árs gamalli fyrirspurn Flokks fólksins um hvernig gengur að leysa úr vanda leikskólanna og hvenær pláss er að vænta fyrir tugi barna. Svarið gefur ekki tilefni til bjartsýni. Hvernig mun haustið líta út? Mestur vandi er að manna stöður. Svo virðist sem allar tilraunir borgaryfirvalda við að leysa mannekluvandann skili afar takmörkuðum árangri. Flokkur fólksins lagði til að nemendum 18 ára og eldri skyldi boðið hlutastarf eftir þeirra eigin óskum og þörfum. Því var hafnað. Boð á vinnustofur er gott og gilt en er engin sérstök gulrót fyrir manneskju i atvinnuleit. Nú eru um 360 pláss sem eru ónýtanleg vegna framkvæmda sem ekki sér fyrir endann á næstu misseri. Það eru ekki góð tíðindi fyrir þá sem bíða nú í mikilli neyð eftir plássi. Ljóst er að óvissan mun áfram íþyngja foreldrum. 3. liður fundargerðar stafræns ráðs frá 24. apríl: Mikil þróunarvinna hefur verið hjá starfsfólki þjónustu- og nýsköpunarsviðs við að koma plastkortum rafrænt í síma. Það merkilega er að öll þessi hönnunar- og þróunarvinna er nú þegar til. Það er búið að koma plastkortum rafrænt í síma út um allt.

    Fylgigögn

  8. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins óska eftir upplýsingum um alla fundi borgarstjóra sem hann hélt eða tók þátt í á tímabilinu 9. maí 2019-24. júní 2021 og vörðuðu samningsgerð Reykjavíkurborgar við olíufélögin um breytta hagnýtingu tiltekinna bensínstöðvalóða. Óskað er jafnframt upplýsinga um með hverjum borgarstjóri fundaði ásamt því að farið er fram á að aðgangur verði veittur að öllum minnisblöðum og fundargerðum á þessu tímabili vegna þessara funda og símafunda. Óskað er eftir að þessar upplýsingar liggi fyrir sem fyrst. MSS24050004

Fundi slitið kl. 17:25

Magnea Gná Jóhannsdóttir Alexandra Briem

Líf Magneudóttir

PDF útgáfa fundargerðar
Fundargerð borgarráðs 07.05.2024 - Prentvæn útgáfa