Rannsóknarverkefni á vegum Reykjavíkurborgar um virði Elliðaárdalsins stendur yfir í sumar með styrk frá Nýsköpunarsjóði námsmanna. Könnun á notkun Elliðaárdalsins er hluti af rannsóknarverkefninu og mun hún standa yfir í júlímánuði.
Hægt er að svara könnuninni með því að fara inn á þessa slóð: Hvers virði er Elliðaárdalurinn?
Græn svæði í Reykjavík búa yfir fjölbreyttri náttúru og eru mikilvægur þáttur í lífsgæðum borgarbúa og lýðheilsu. Náttúran veitir margskyns þjónustu sem er mikils virði en er þrátt fyrir það í mörgum tilfellum vanmetin. Ein leið til að meta virði þjónustunnar eru rannsóknir.
„Náttúran er í raun ómetanleg en við eigum það til að vanmeta hana og því er nauðsynlegt að kanna fjölbreytt virði hennar í hugum fólks og hvernig það nýtir græn svæði til útivistar, líkamsræktar, veiða, berjatínslu, slökunar, ljósmyndunar og margt fleira,“ segir Hrönn Hrafnsdóttir umhverfishagfræðingur hjá umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkurborgar. „Í rannsókninni er tekið mið af aðferðafræði sem er nýlunda en hefur verið nýtt erlendis og við heildstætt verðmætamat á Heiðmörk. Það verður spennandi að sjá niðurstöður þessarar rannsóknar.“
Katrín Svana Eyþórsdóttir meistaranemi í umhverfis- og auðlindafræði við Háskóla Íslands vinnur að rannsókninni í sumar undir leiðsögn Hrannar.
Í umhverfis- og auðlindastefnu í aðalskipulagi Reykjavíkur kemur fram að tryggja eigi lífsgæði borgarbúa með því að meta auðinn sem felst í náttúru og hreinu umhverfi. Tilgangurinn með því að meta þjónustu náttúrunnar er að efla hana og draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum.
Könnunin er byggð upp á ákveðinni aðferðafræði sem er beitt við hagrænt mat á virði náttúru. Aðferðafræðin felst í því að setja upp ímyndaðar aðstæður fyrir ákveðið svæði og fólk er beðið um að gefa upp hversu mikið það væri tilbúið að greiða fyrir slíkar aðstæður.
Aðferðin er fremur ný af nálinni á Íslandi en hefur áður verið notuð erlendis og einnig sem hluti af heildstæðu verðmætamati á Heiðmörk. Hún er verkfæri sem margar þjóðir hafa nýtt sér þegar kemur að verndun grænna svæða og nýtingu.
Það tekur um 5-7 mínútur að svara könnuninni og þátttaka er mikilvæg fyrir Reykjavíkurborg til að meta virði þjónustu náttúrunnar í Elliðaárdal. Öll þátttaka er nafnlaus og svörin því órekjanleg. Allir eru hvattir til að svara þessari könnun.
Elliðaárdalur í Reykjavík er borgargarður og hluti af grænu belti sem nær frá Öskjuhlíð, eftir Fossvogsdal og upp í Heiðmörk. Fjöldi fólks nýtir sér dalinn til útivistar og er hann jafnframt vel nýtt samgönguæð göngu- og hjólreiðafólks.Þar má finna fjölmargar tegundir íslenskra plantna og varpfugla, og villtur lax gengur í Elliðaár. Árnar hafa verið nýttar til raforkuframleiðslu í hartnær 100 ár og skógur verið ræktaður í dalnum í liðlega 60 ár.
Tengil
Hvers virði er Elliðaárdalurinn?