Vegur Vatnsins

Mannlíf Menning og listir

""

Framkvæmdir eru hafnar á Bernhöftsbrekku en þar á að reisa rúmlega tíu metra állistaverk sem ber heitið Vegur Vatnsins/Way of the Water.  Þetta er útilistaverk eftir bandarísku listakonuna Heather Shaw og mun verkið standa á Bernhöftstorfunni út ágústmánuð.

Verkið er framlag góðgerðarsjóðsins Best Peace Solution (BPS) til borgarsamfélagsins. BPS hefur verið starfræktur frá því í byrjun árs 2015, en sjóðurinn var stofnaður til þess að ýta undir og styrkja sjálfsprottin samfélagsverkefni sem efla menningu og listir, stuðla að náttúruvernd og friði.

Sjóðurinn hefur meðal annars styrkt Tónlistarþróunarmiðstöðina í Reykjavík, Nýlistasafnið (The Living Art Museum), náttúruverkefnið Gætum garðsins og friðar-kvikmyndarhátíð í Bíó Paradís.
Charlie Annenberg og explore.org eru styrktaraðilar sjóðsins. En í stjórn hans sitja Oliver Luckett, Scott Guinn, Heiða Kristín Helgadóttir og Einar Örn Benediktsson.

Verk Heather á að fegra borgarumhverfið og gera það litríkara. Því er líka ætlað að draga athygli vegfarenda að Bernhöftstorfunni. Tímasetningin á uppsetningu verksins er ekki tilviljun, en með því að hafa verkið til sýnis í ágústmánuði vill listakonan og aðstandendur sjóðsins þakka fyrir þrautlausa baráttu samkynhneigðra á Íslandi fyrir mannréttindum.  Sú barátta hafi verið öðrum hvatning um allan heim.

Icelandair Cargo​ og Frakt veittu aðstoð við fluttninginn á verkinu og Suðulist​ sér um nákvæma uppsetningu á því.