Tölvukennsla brúar kynslóðabilið

Velferð Skóli og frístund

""

Kynslóðabilið er brúað á tölvunámskeiði í félagsmiðstöðinni Vesturgötu 7.  Þar líkt og á fleiri félagsmiðstöðvum velferðarsviðs koma saman börn og fullorðnir og tileinka sér ýmislegt á sviði tölvunotkunar. En hlutverkin snúast við því þarna eru það börnin sem kenna fullorðna fólkinu.

Áhugi á tölvukennslu er mikill meðal krakkanna í 7. bekk Vesturbæjarskóla og alltaf eru nýir kennarar úr þeirra hópi mættir á hvern námskeiðsdag því færri komast að en vilja. Þegar kennslustundinni lýkur er þeim boðið upp á kaffi og með því á félagsmiðstöðinni.

Ekki mátti á milli sjá hver hafði meiri áhuga á þessu námskeiði, nemendur eða ungu leiðbeinendurnir. Helst var verið að kenna hvernig mætti nota samfélagsmiðla, s.s. Facebook, hvernig ljósmyndum og öðru efni er halað inn á tölvur af minniskubbum eða vefsíðum, hvernig spjallrásir virka og leit á Youtube og Google svo eitthvað sé nefnt.

Í fyrra ákvað Reykjavíkurborg, í samstarfi við Apple á Íslandi, að bregðast við tölvuáhuga meðal heldri borgara með því að koma fyrir iPad spjaldtölvum í félagsmiðstöðvunum, Hæðargarði, Vesturgötu, Hvassaleiti, Bólstaðarhlíð, Hraunbæ, Aflagranda, Gerðubergi og Korpúlfsstöðum. Gestum þeirra er velkomið að fá þær að láni og spreyta sig á færni sinni og þekkingu. 

Félagsmiðstöðvar velferðarsviðs eru opnar öllum, óháð aldr, og þar er margt um að vera alla virka daga vikunnar.