Þórunn Ólafsdóttir hlýtur Mannréttindaverðlaun Reykjavíkurborgar 2016

Mannlíf Mannréttindi

""
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri veitti í morgun Þórunni Ólafsdóttur, sem hefur unnið ötult hjálparstarf í þágu flóttamanna í flóttamannabúðunum í Idomeni, Mannréttindaverðlaun Reykjavíkurborgar við hátíðlega athöfn í Höfða. 

 

 
Þórunn hefur verið við sjálfboðastörf á eynni Lesbos frá því í ágúst á síðasta ári þar sem hún hefur barist fyrir mannréttindum fólks á flótta, og frætt almenning um þær erfiðu aðstæður sem bíða flóttafólks við komuna til Evrópu. Þórunn er enn við störf í Idomeni og gat ekki veitt verðlaununum viðtöku sjálf en amma hennar og nafna Þórunn Ólafsdóttir tók við verðlaununum fyrir hennar hönd.
 

Borgarstjóri sagði við afhendingu verðlaunanna að starf Þórunnar væri ómetanlegt „ Þórunn hefur unnið þrotlaust að hjálparstarfi þar sem neyðin er mest í Evrópu við móttöku flóttafólks í flóttamannabúðunum í Idomeni.  Hún hefur lagt sjálfa sig í hættu og lagt allt í sölurnar fyrir starf sitt að mannúðarmálum.  Á milli þess sem hún sinnir sjálfboðastörfum hefur hún verið óþreytandi við að fræða Íslendinga um stöðuna í Evrópu varðandi flóttafólk“ sagði borgarstjóri. Verðlaunin að þessu sinni eru 600 þúsund krónur.

 
Hildur Karen Sveinbjarnardóttir, situr í stjórn Akkeris, flutti stutt ávarp fyrir hönd Þórunnar þar sem hún sagði meðal annars:
"Fátt veldur mér meiri áhyggjum en að búa í heimi þar sem það þykir hetjudáð að hjálpa öðrum. Með því að standa vörð um mannréttindi annarra stöndum við líka vörð um okkar eigin. Mannréttindi eru nefnilega ekki náttúrulögmál eða sjálfsagður réttur sem fylgt hefur mannkyninu frá örófi alda. Mannréttindi eru pólitísk ákvörðun. Réttindi sem formæður okkar og feður þurftu að berjast fyrir og geta verið tekin af okkur, brotin og hunsuð á margvíslegan hátt - af stjórnvöldum, atvinnurekendum eða samborgurum. Mannréttindi eru ekki annað en blek á blaði ef við verndum þau ekki með orðum okkar og gjörðum. " Ræðan í heilda sinni.
 
Að lokinni afhendingu Mannréttindaverðlaunanna úthlutuðu Magnús Már Guðmundsson og Sabine Leskopf fulltrúar í mannréttindaráði, styrkjum mannréttindaráðs til 20 verkefna að upphæð samtals  7 milljónum 150 þúsund krónum.
 
Mannréttindaverðlaunin eru veitt þeim einstaklingum, félagasamtökum eða stofnunum sem hafa á eftirtektarverðan hátt staðið vörð um mannréttindi tiltekinna hópa.