Sýningin um Björk til Reykjavíkur?

Mannlíf Menning og listir

""

Borgarráð hefur falið Svanhildi Konráðsdóttur, sviðsstjóra menningar- og ferðamálasviðs, að kanna forsendur þess að sýning sem byggir á ferli Bjarkar Guðmundsdóttur sem nú stendur yfir í samtímalistasafninu MoMA í New York verði sett upp að hluta til eða í heild sinni í Reykjavík.

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, Svanhildur Konráðsdóttir, sviðsstjóri menningar- og ferðamálasviðs og Hafþór Yngvarsson, safnstjóri Listasafns Reykjavíkur, voru viðstödd opnun sýningarinnar þann 8. mars sl. og ræddu við sýningarstjórann Klaus Biesenback sem gerði grein fyrir helstu forsendum hennar. Sýningunni lýkur í byrjun júní í MoMA og er ráðgert að hún verði sett upp í nokkrum borgum víða um heim og opnanir skipulagðar í tengslum við fyrirhugaða tónleikaferð Bjarkar. Áætlað er að það ferðalag taki um það bil þrjú ár.

Sýningin er umfangsmikil og er samansett af fjórum megin þáttum; sérsmíðuðu rými þar sem gesturinn er leiddur með aðstoð hátækni hljóðleiðsagnar um mismunandi tímaskeið á ferli Bjarkar. Í rýmunum eru dagbókar- og textabrot, búningar og munir en fyrst og fremst er hugmyndin að leiðin liggi um þann einstæða hljóðheim sem Björk hefur skapað. Annað rými inniheldur sérpantað verk við lagið Black Lake sem sýnt er í þar til gerðum hljóðhönnuðum sal. Í því þriðja er hægt að upplifa á þriðja klukkutíma af myndböndum sem Björk hefur gert í samvinnu við ýmsa aðra listamenn og hönnuði í gegnum tíðina og loks eru fjögur hljóðfæri úr Bíophiliu-verkefninu í opnum rýmum safnsins.

Dagur, Svanhildur og Hafþór áttu fund með lykilfólki hjá safninu og forsvarsmönnum Manchester International Festival, sem ber ábyrgð á farandsýningunni og ræddu möguleikann á því hvort sýningin eða hluti hennar, eigi viðkomu eða ljúki ferð sinni í heimaborg Bjarkar Reykjavík. Afar vel var tekið í þá hugmynd af listamanninum, fulltrúum MoMA og þeim sem bera ábyrgð á ferðalagi sýningarinnar.  Verkefnið þarfnast mikils undirbúnings sem felst m.a. í rýningu á forsendum s.s. mögulegum sýningarrýmum í Reykjavík, listrænni stjórnun og hugsanlegum breytingum á sýningunni, kostnaði og fleiru.

Svanhildur Konráðsdóttir, sviðsstjóri menningar- og ferðamálasviðs, segir um afar spennandi tækifæri að ræða og því mikilvægt að vinna forvinnuna vel. ,,Þessi sýning hefur vakið gríðarlega athygli og er vel sótt enda nýtur Björk mikillar virðingar alþjóðlega sem einstakur listamaður. Dómarnir hafa að sönnu verið misjafnir en gagnrýnin snýr fyrst og fremst að þeirri leið sem sýningarstjórinn kaus að fara í MoMA. Efniviðurinn er frábær og heldur náttúrlega bara áfram að vaxa. Okkar skilningur er sá að sýningin eigi líklega eftir að taka breytingum á næstu misserum og liður í undirbúningi okkar er m.a. að kanna í hvaða formi helst kæmi til greina að setja hana upp hér í Reykjavík. Við höfum tímann fyrir okkur og það væri óneitanlega mjög magnað að geta gert þetta að veruleika hér í Reykjavík.“