Skólahljómsveit æfir með Sinfó

Skóli og frístund Mannlíf

""

Börn og ungmenni í tveimur eldri sveitum Skólahljómsveitar Árbæjar og Breiðholts æfðu með Sinfóníuhljómsveit Íslands á dögunum en jólatónleikar eru í uppsiglingu.  

Rúnar Óskarsson stýrði ungum og reyndari hljóðfæraleikurunum í völdum verkefnum sem útsett höfðu verið fyrir sameiginlegan flutning. Hljóðfæraleikar sínfóníunnar tóku þeim yngri sérlega vel og klöppuðu þeim lof í lófa í lok æfingarinnar.

Æfingin er hluti af stærra samstarfsverkefni Sinfóníunnar og skólahljómsveitarinnar sem hófst í vor með tónleikum sveitanna í Breiðholtsskóla og Fylkishöll fyrir börn í Árbæjarskóla. Í desember leikur elsta sveit skólahljómsveitarinnar á jólatónleikum með Sinfóníuhljómsveit Íslands í Eldborg og í mars á næsta ári leika svo sveitirnar aftur saman á tónleikum og þá verða allir aldurshópar skólahljómsveitarinnar með. 

Stjórnandi skólahljómsveitarinnar, Snorri Heimisson, undirbýr nemendur ásamt kennurum fyrir samstarfið því þetta er krefjandi verkefni fyrir börn og ungmenni. Snorri hefur útbúið efni fyrir hljóðfæraleikara Sinfóníunnar þannig að þeir geti mætt börnunum í útsetningum sem þau hafa vald á og auk þess pantað nýjar útsetningar fyrir þennan samleik. Einar Jónsson, stjórnandi skólahljómsveitar Grafarvogs, hefur útsett verkefni fyrir þetta samstarf með stuðningi þróunarsjóðs skóla- og frístundasviðs og er það von manna að þær útsetningar komi til með að nýtast fleirum. Allt er þetta verkefni svo undir styrkri stjórn Hjördísar Ástráðsdóttur, fræðslustjóra Sinfóníuhljómsveitar Íslands.