Skóla- og frístundaráð úthlutar styrkjum fyrir nær 30 milljónir króna

Skóli og frístund

""

Skóla- og frístundaráð afgreiddi á fundi sínum í dag úthlutun almennra styrkja og þróunarstyrkja fyrir árið 2014.  Alls fengu 16 verkefni almenna styrki og 38 verkefni styrki til nýbreytni- og þróunarstarfs. Óskað var sérstaklega eftir verkefnum tengdum fjölmenningarlegu skóla- og frístundastarfi í Reykjavíkurborg sem og umsóknum frá foreldrafélögum í tilefni 30 ára afmælis SAMFOKS.

Almennir styrkir
36 umsóknir bárust um almenna styrki og sóttu foreldrafélög um styrki til margvíslegra verkefna, s.s. til að kynna leiki fyrir börnum af ólíkum uppruna og til að standa fyrir fræðslukvöldum af ýmsu tagi, t.d. um fjármálalæsi og tölvunotkun.

Hæsti styrkurinn, 600.000 kr. fór til ADHD- samtakanna til að útbúa námskeið á netinu fyrir leiðbeinendur í íþrótta- og tómstundastarfi. Verkefnið Sögupokinn sem miðar að því að efla íslenskukunnáttu fjölskyldna af erlendum uppruna, fékk næsthæsta styrkinn, 450.000 kr., og forvarnarverkefnið Ella umferðartröll og farandsýningin Undir himni, sem ætluð er leikskólabörnum, fengu 400.000 kr. styrk hvort.

Yfirlit yfir almenna styrki skóla- og frístundaráðs 2014. 

Styrkir til  þróunarverkefna
Við úthlutun þróunarstyrkja var horft til verkefna sem miða að því að efla fjölmenningarlegt skóla- og frístundastarf, en tilgangur styrkveitinga er að stuðla að nýbreytni, fagmennsku, auknu samstarfi og rannsóknum. Alls bárust 73 umsóknir og var úthlutað til 38 þróunarverkefna.

Hæsti styrkurinn, 3 milljónir króna, rann til verkefnisins Fullgild þátttaka í Háaleitisskóla, en sá næsthæsti, 1,7 milljónir kr.  kom í hlut Frístundamiðstöðvarinnar Miðbergs í Breiðholti og verður varið til að kortleggja þátttöku barna af erlendum uppruna í starfi frístundaheimilanna. Þá fékk verkefnið Okkar mál 1,5 milljóna króna styrk, en það byggir á samstarfi leikskóla, grunnskóla, þjónustumiðstöðvar og Menntavísindasviðs HÍ um leiðir til að efla menningu, mál og læsi í Fellahverfi.

Yfirlit yfir þróunarstyrki skóla- og frístundaráðs 2014.

Oddný Sturludóttir, formaður skóla- og frístundaráðs, segir ánægjulegt hversu fjölbreytt þróunarverkefni spretti upp í skóla- og frístundastarfinu; „Það er ekki síst gleðilegt að sjá hversu mörg verkefnin byggja á þverfaglegu samstarfi  leikskóla, grunnskóla og frístundamiðstöðva. Þróunarsjóðurinn er ómetanlegt vítamín fyrir þróttmikið þróunarstarf og starfsfólk SFS skilar metnaðarfullum umsóknum um fjölbreytt verkefni sem öll bera umhyggju þeirra fyrir börnum og ungmennum borgarinnar fagurt vitni“.