„Borgarbúar hafa verið duglegir að sækja sér sand og salt á hverfastöðvarnar og verkbækistöðvar garðyrkjunnar,“ segir Guðjóna Björk Sigurðardóttir stjórnandi reksturs og umhirðu borgarlandsins. Íbúar moka sjálfir í poka sem eru á staðnum eða ílát sem þeir hafa meðferðis.
Sand og salt geta íbúar sótt á hverfastöðvarnar sem eru við Njarðargötu, í Jafnaseli, á Kjalarnesi sem og í þjónustumiðstöðina á Stórhöfða. Hverfastöðvarnar eru opnar mánudaga til fimmtudaga frá kl. 7:30 – 17:00 og föstudaga kl. 7:30 – 15:25. Einnig má sækja sand á verkbækistöðvar garðyrkjunnar við Árbæjarblett og á Klambratúni við Flókagötu. Þær eru opnar lengur mánudaga til miðvikudaga eða frá kl. 7:30 – 17:25 (en ekki 18:00 eins og missagt var í fyrstu útgáfu þessarar fréttar), en skemur fimmtudaga og föstudaga kl. 7:30 – 15:25.
Síbreytilegar aðstæður
„Það er erfitt að eiga við klakann og mörgum getur orðið hált á svellinu þegar hlánar“, segir Guðjóna sem hvetur íbúa til að nýta sér sandinn og saltið sem borgin leggur til. „Starfsmenn Reykjavíkurborgar leggja sig fram um að sinna vetrarþjónustunni vel, en aðstæður eru síbreytilegar og tíðafarið undanfarið hefur verið erfitt. Við erum ekki fyrr búin með yfirferð en við þurfum að fara aftur því aðstæður hafa breyst“, segir hún og hvetur íbúa til að senda inn ábendinga á vef Reykjavíkurborgar. „Við leggjum áherslu á að bregðast vel og hratt við þegar ábendingar berast.“
Nánari upplýsingar:
Snjóhreinsun og hálkuvarnir - Um viðbragðsáætlun vetrarþjónustu og kort með þjónustuflokkum (forgangsáætlun).
Ábendingavefur >>> Borgarlandið fyrir þínar ábendingar