Reykjavíkurborg styrkir Grænlandssöfnun um fjórar milljónir

Mannlíf Stjórnsýsla

""

Borgarráð samþykkti á fundi sínum í morgun tillögu borgarstjóra að veita landssöfnun Hjálparstarfs Kirkjunnar og Grænlandsvina fjögurra milljóna króna styrk vegna náttúruhamfaranna á Grænlandi 18. júní sl.

Með styrknum vill Reykjavíkurborg sýna Grænlendingum vinarhug í verki og styrkja þá sem eiga um sárt að binda.
Hjálparstofnun kirkjunnar, Kala – vinafélag Íslands og Grænlands og skákfélagið Hrókurinn hafa gengið til samstarfs um landssöfnun vegna hamfaranna sem urðu í Nuugaatsiag  á Grænlandi 18. júní sl.
Í greinargerð með tillögu borgarstjóra sem lögð var fyrir borgarráð í morgun segir:  „Grænlenska þjóðin hefur orðið fyrir áfalli og þarf á því að halda að finna vináttu og stuðning. Aðstandendur landssöfnuninnar vilja m.a. fá sveitarfélög á Íslandi til að leggja sitt af mörkum og óskuðu eftir stuðningi og frumkvæði Reykjavíkurborgar svo að það verði sem flestum sveitarfélögum metnaðarmál að taka þátt í söfnuninni.“