Reykjavík með í verkefninu Fjölmenningarborgir

Mannlíf Menning og listir

""

Borgarráð hefur samþykkt tillögu borgarstjóra um að mannréttindaskrifstofa sæki um aðild fyrir hönd Reykjavíkurborgar að verkefninu Fjölmenningarborgir (e. Intercultural Cities) sem rekið er af Evrópuráðinu.

Verkefnið styður borgir í að endurskoða stefnumótun út frá sjónarhorni fjölmenningar í þeim tilgangi að móta heildstæða fjölmenningarstefnu til þess að gera borgunum betur kleift að stýra fjölbreytileikanum í jákvæðar áttir og raungera hin auknu gæði sem fjölbreytileikinn felur í sér.

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri segir margbreytileikann skipta miklu máli. Annars væri Reykjavík einsleit. „Þátttaka okkar í þessu verkefni endurspeglar kannski fyrst og fremst áframhaldandi áherslu á fjölmenningu í Reykjavík. Það er mikilvægt að læra af reynslu annarra borga og þess vegna ætlum við að taka þátt í þessu spennandi verkefni.“

Þátttökurétt í verkefninu hafa einungis borgir með að minnsta kosti 30 þúsund íbúa og þurfa minnst 5% íbúa að vera af erlendum uppruna. Hlutfall íbúa Reykjavíkur með erlent ríkisfang var 8,1% í árslok 2013.

Kostnaður vegna þátttöku í verkefninu eru um 750 þúsund á ári eða 5000 evrur.

Mannréttindaskrifstofa mun sækja um aðild að verkefninu til reynslu til ársins 2016 og að þeim tíma liðnum verði það endurmetið.

Nánari upplýsingar um Intercultural cities.