Rekstur Reykjavíkurborgar sterkur

Fjármál Stjórnsýsla

""

Rekstrarniðurstaða A-hluta Reykjavíkurborgar fyrir fyrstu sex mánuði ársins var jákvæð um ríflega 3,6 milljarða króna. Þetta kom fram á fundi borgarráðs í dag þar sem hálfsárs uppgjör Reykjavíkurborgar var staðfest.

Rekstrarniðurstaða A-hluta var jákvæð um 3.633 milljónir kr en áætlun gerði ráð fyrir að hún yrði jákvæð um 1.139 mkr. Niðurstaðan er því 2,494 mkr betri en gert var ráð fyrir.  A-hluti Reykjavíkurborgar heldur utan um rekstur borgarinnar. Betri rekstrarniðurstaða A-hlutans skýrist einkum af hærri tekjum af sölu byggingarréttar og söluhagnaði fasteigna sem var 1.118 mkr umfram áætlun auk hærri skatttekna og framlögum Jöfnunarsjóðs, sem voru 900 mkr hærri en áætlun gerði ráð fyrir og Þá hafa fagsvið Reykjavíkurborgar haldið vel utan um reksturinn og staðist fjárhagsáætlanir.  

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri segir niðurstöðuna og stöðu borgarsjóðs sterka hvernig sem á uppgjörið sé litið. ,,Þessi góði árangur er afrakstur mikillar vinnu hundruða starfsfólks Reykjavíkurborgar, forstöðumanna stofnana, sviðstjóra, fjármáladeilda og fyrirtækjanna okkar. Kostnaður er á áætlun en tekjur styrkjast, auk þess sem hreinar skuldir lækka umtalsvert. Þetta gerir okkur kleift að bæta við fjárframlögum í skólamál, velferðar- og húsnæðismál og endurnýjun innviða. Það höfum við gert frá því viðsnúningur varð í rekstrinum um mitt síðasta ár og munum halda því áfram í næstu fjárhagsáætlun. Sterkari fjárhagsstaða gerir þetta kleift og skólar, velferð, húsnæðismál og innvirðir eru í forgangi hjá meirihluta borgarstjórnar,” segir Dagur B. Eggertsson. 

Rekstrarniðurstaða samstæðu Reykjavíkurborgar, A- og B-hluta, var jákvæð um tæpa 18,6 milljarða króna en áætlanir gerðu ráð fyrir jákvæðri niðurstöðu um 7,8 milljarða króna. Rekstrarniðurstaðan er því 10,8 milljörðum króna betri en gert var ráð fyrir.  Helstu ástæður fyrir betri afkomu samstæðunnar má rekja til þess að eignir Félagsbústaða hf   hækkað í verði vegna hækkandi fasteignamats, lægri fjármagnsgjalda samstæðunnar en þar munar mest um Orkuveituna og lægri rekstrarkostnaðar. 

Hreinar skuldir, bæði A-hluta og samstæðunnar lækka. Eiginfjárhlutfall samstæðunnar fer hækkandi og er nú 47,3% en var 45,8% um síðustu áramót.
Rekstur Reykjavíkurborgar skiptist í A-hluta og B-hluta. Til A-hluta telst starfsemi sem að hluta eða öllu leyti er fjármögnuð með skatttekjum. Um er að ræða Aðalsjóð, sem heldur utan um rekstur fagsviða, Eignasjóð og Bílastæðasjóð.
Til B-hluta teljast fjárhagslega sjálfstæð fyrirtæki sem að hálfu eða meirihluta eru í eigu borgarinnar, en rekstur þeirra er að stofni til fjármagnaður með þjónustutekjum. Fyrirtækin eru:  Orkuveita Reykjavíkur, Faxaflóahafnir sf., Félagsbústaðir hf., Íþrótta- og sýningahöllin hf., Malbikunarstöðin Höfði hf., Slökkvilið höfuðborgar¬svæðisins bs., Sorpa bs. og Strætó bs, auk Aflvaka hf og Jörundar ehf.

Myndin hér að neðan sýnir hreinar vaxtaberandi skuldir samstæðu Reykjavíkurborgar.

 

 

Sex mánaða uppgjör Reykjavíkurborgar

Skýrsla fjármálaskrifstofu með sex mánaða uppgjöri