Rafrænir reikningar frá áramótum 2015

Stjórnsýsla Fjármál

""

Borgarráð hefur samþykkt yfirlýsingu um að frá og með 1. janúar 2015 muni Reykjavíkurborg eingöngu taka við reikningum á rafrænu formi frá birgjum vegna vöru og þjónustu ef um er að ræða birgja sem senda Reykjavíkurborg reikninga reglubundið í hverjum mánuði. Heildarsparnaður vegna innleiðingar á rafrænum reikningum hjá Reykjavíkurborg er áætlaður 130 – 150 milljónir króna á ári. 

Notkun rafrænna reikninga sparar borginni nú þegar 80 -100 milljónir króna á ári en fjármálaskrifstofa Reykjavíkurborgar hóf á miðju ári 2009 að taka á móti birgjareikningum frá völdum stórum birgjum á rafrænu formi samkvæmt alþjóðlega viðurkenndum staðli.  
 
Innri reikningar Reykjavíkurborgar hafa verið rafrænir frá árinu 2011. Á árinu 2013 voru rafrænir reikningar um 100 þúsund sem eru um það bil 40% af reikningamagni hjá borginni. 
 
Sparnaður Reykjavíkurborgar hefur m.a. komið fram í um 20% fækkun starfsfólks í bókhaldi, lækkun innri leigu vegna minna húsnæðis, sparnaði í geymslu á pappír og fleiru. Engum starfsmanni hefur þó verið sagt upp en ekki hefur verið ráðið í stað þeirra sem látið hafa af störfum undanfarin ár.
 
Fjármálaskrifstofa hefur lagt áherslu á að innleiða rafræna ferla þar sem því verður við komið. Þannig hefur skrifstofan hafið innheimtu krafna með útsendingu rafrænna reikninga sem sparar talsverðan kostnað vegna greiðsluseðla, póstburðargjalda og pökkunar.  Fjármálaskrifstofa sendir einnig launaseðla til 8.500 starfsmanna eða um 100.000 launaseðla á ári í heimabanka starfsfólks og birtir þá einnig á aðgangsstýrðum starfsmannavef.
 
Ávinningur rafrænna reikninga er ekki aðeins í formi sparnaðar því líta má á rafræna reikninga sem „grænt skref“ og afar umhverfisvæna lausn. Þá hefur innleiðing rafrænna reikninga stutt við skilvirkara eftirlit með birgjum og útgjöldum og leitt til þess að greiðslur dráttarvaxta heyra nánast sögunni til. 
 
Reynt verður að taka á móti rafrænum reikningum frá öllum birgjum sem þess óska þegar á árinu 2014 en breytingin 1. janúar 2015 tekur til valdra stórra birgja sem senda Reykjavíkurborg reikninga reglubundið í hverjum mánuði. Birgjar sem eru í minni viðskiptum gefst kostur á aðlögun að þessari reglu til 30. júní 2015.