Öll 18 mánaða börn fá boð um leikskólavist

Skóli og frístund

""
Öll börn fædd í janúar og febrúar á árinu 2015 fá boð um að komast í leikskóla í ágúst. 
Öll börn fædd í janúar og febrúar á árinu 2015 fá boð um að komast í leikskóla í ágúst. Þetta var ákveðið á fundi borgarráðs í morgun. Með þessu verða þau tímamót að öllum börnum 18 mánaða og eldri býðst leikskólavist frá og með haustinu en reglur borgarinnar hafa miðast við að börn innritist á leikskóla árið sem þau ná tveggja ára aldri. 
 
Svigrúm verður til að taka inn fleiri börn í leikskólana á haustmánuðum vegna barnafækkunar á milli ára og verða því um 200 börn yngri en tveggja ára innrituð. 
 
Töluvert var bætt við húsnæði leikskólanna þegar stóru fæðingarárgangarnir frá 2009 og 2010 náðu leikskólaaldri. Því verður aukarými í leikskólum borgarinnar þegar elsti árgangur leikskólabarnanna hefur grunnskólagöngu nú í haust. Með því að taka inn yngri börn í leikskólana má nýta betur húsnæði, ná jafnvægi í starfsmannahaldi og bæta þjónustu við barnafjölskyldur með ung börn.
 
Framundan er vinna við að greina tækifæri til að bjóða enn yngri börnum leikskólaþjónustu á komandi árum. Stefna núverandi meirihluta borgarstjórnar er að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla m.a. með aðkomu ríkisins.