Nýtt safn hefur fengið nafn: Borgarsögusafn Reykjavíkur

Mannlíf Menning og listir

""
Reykvíkingar eignuðust nýtt safn í dag sem fengið hefur nafnið Borgarsögusafn Reykjavíkur en undir það heyra söfnin og sýningarnar: Árbæjarsafn, Landnámssýningin Aðalstræti, Ljósmyndasafn Reykjavíkur, Sjóminjasafnið í Reykjavík og Viðey.
Athöfnin hófst á því að Jón Gnarr borgarstjóri og kórarnir Hrynjandi og Bartónar sigldu frá gömlu höfninni í Reykjavík að Sjóminjasafninu en þar brustu kórarnir í söng og skemmtu hátíðargestum.
 
Þegar í land var komið gekk Jón Gnarr ásamt kórfólki upp landganginn og marseruðu þau síðan í einni fylkingu upp á svið Hátíðar hafsins.
 
Efnt var til nafnasamkeppni fyrir nýja safnið í byrjun maí og bárust ótal tillögur. Dómnefnd fór yfir tillögurnar og var það samdóma álit að Borgarsögusafn væri rétta nafnið á safnið. Sigrún Björnsdóttir sendi inn tillöguna og afhenti borgarstjóri henni verðlaun við athöfnina.
 
Að því loknu tilkynnti borgarstjóri formlega nýja nafnið á nýja safnið og að því loknu opnaði borgarstjóri safnið  með því að sprengja freyðivínsflösku á akkeri við mikil fagnaðarlæti.