Nýr innsiglingarviti við Sæbraut

Framkvæmdir Mannlíf

""

Borgarráð hefur samþykkt að að fara í framkvæmdir við að koma fyrir nýjum innsiglingarvita og útsýnispalli við Sæbraut.

Komið verður fyrir grjótvörn og fyllingu fyrir innsiglingarvitann á móts við Höfða. Nýr innsiglingarviti kemur í stað núverandi vita á Sjómannaskóla Íslands við Háteigsveg. Nýr viti verður með sama útliti og innsiglingarvitar við Austurhöfn og Eyjagarð.

Um er að ræða samstarfsverkefni með Faxaflóahöfnum sem kostar smíði vitans, lagnir og tekur þátt í yfirborðsfrágangi. Ennfremur verður byggður útsýnispallur kringum vitann svo gestir og gangandi geti notið fjallasýninnar.

Áætlað er að framkvæmdir hefjist í febrúar nk. og þeim verði að fullu lokið í júní 2018. Áætlaður kostnaður Reykjavíkurborgar er 75 milljónir króna.

Uppfært 4. desember 2018. Í fjárfestingaráætlun Reykjavíkurborgar sem er birt í fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar fyrir árið 2018 (bls 53) er áætlaður kostnaður borgarinnar við innsiglingarvita 100 milljónir króna. Nýjar áætlanir gera ráð fyrir 150 milljón króna kostnaði borgarinnar við vitann.