Nýdanskir heimsækja borgarstjóra

Mannlíf Menning og listir

""
Meðlimir hljómsveitarinnar Nýdönsk mættu á skrifstofu borgarstjóra í dag og hittu Dag B. Eggertsson borgarstjóra og færðu honum fána hljómsveitarinnar að gjöf. 
Tilefni heimsóknarinnar er að nú standa yfir Nýdanskir dagar, en þá heldur hljómsveitin tónleika í völdum þéttbýliskjörnum í febrúar.
 
Eins og hljómsveitarmeðlimir sögðu sjálfir hefjast Nýdanskir dagar í hinum ýmsu sveitarfélögum með opinberri heimsókn þar sem bæjar/borgarstjórar eru sóttir heim, þeir varaðir við hávaða og leystir út með dýrum gjöfum. "Á Nýdönskum dögum ræður fólk sinni dagskrá sjálft, en herlegheitin ná hámarki með tónleikum þar sem öll nýdönskustu lögin eru sungin og leikin í fúlustu alvöru og hæstu upplausn af hljómsveitinni Nýdönsk." 
 
Björn Jörundur afhenti Degi fána hljómsveitarinnar og Dagur afhenti þeim fána með skjaldarmerki borgarinnar.
 
Tónleikar hljómsveitarinnar verða haldnir í Gamla Bíói í Reykjavík þann 27. febrúar nk.