Niðurstaða A-hluta jákvæð um 2,6 milljarða

Fjármál

""

Ársreikningur Reykjavíkurborgar fyrir árið 2016 sýnir að rekstur borgarinnar gengur vel og að stjórn fjármála er sterk. 

Nokkrar lykiltölur úr rekstrinum sýna eftirfarandi

• Rekstrarkostnaður 946 milljónum lægri en áætlun.
• Rekstartekjur 257 milljónir umfram áætlun
• Samstæðan (A- og B-hluti) skilar jákvæðum rekstri upp á 26,5 milljarða
• Reykjavík birtir bókhaldið sem opin gögn fyrst opinberra aðila
• Skuldir A- og B-hluta lækka og eru vel innan viðmiða um fjárhag sveitarfélaga.

Ársreikningur Reykjavíkurborgar fyrir árið 2016 var kynntur í borgarráði í dag. Var honum síðan vísað til fyrri umræðu í borgarstjórn.

Rekstrarniðurstaða A-hluta var jákvæð um 2.637 milljónir króna en áætlanir gerðu ráð fyrir jákvæðri niðurstöðu upp á 475 milljónir. Betri rekstrarniðurstaða skýrist einkum af lægri rekstrarkostnaði, sem var 946 milljónum krónum lægri en áætlun gerði ráð fyrir og hærri rekstrartekjum sem voru 257 mkr umfram áætlun.  Einnig voru fjármunatekjur og fjármagnsgjöld  1.132 mkr lægri en áætlanir sýndu.

Öll fagsvið borgarinnar voru innan fjárheimilda en fagsviðin halda utan um málaflokka eins og skóla- og velferðarmál sem og umhirðu og framkvæmdir borgarinnar.

„Ég er stoltur af þessari niðurstöðu. Málaflokkar borgarinnar og fyrirtæki skila öll góðri niðurstöðu, eins og ársreikningurinn ber með sér. Þessi mikli viðsnúningur er ávöxtur gríðarlegrar vinnu fjölmargra starfsmanna og stjórnenda og fyrir það vil ég þakka. Skuldir lækka, hagræðingarmarkmið okkar hafa náðst og fjárhagsstaða borgarinnar er sterk. Þessi mikla vinna hefur skilað góðri niðurstöðu og mun skila enn meiru á komandi árum,“ segir Dagur B. Eggertsson borgarstjóri.

Öll fyrirtæki borgarinnar rekin með hagnaði

Rekstrarniðurstaða samstæðu Reykjavíkurborgar, A- og B-hluta, var jákvæð um 26.372 milljónir króna en áætlanir gerðu ráð fyrir jákvæðri niðurstöðu um 11.673 mkr.

Í B-hlutanum voru öll fyrirtæki sem borgin á hlutdeild í rekin með hagnaði í fyrra.

Rekstrarniðurstaðan er því 14.699 mkr betri en gert var ráð fyrir.  Helstu ástæður fyrir þessum háu tölum má rekja annars vegar til hærri tekjufærðra matsbreytinga fjárfestingaeigna Félagsbústaða hf. vegna hærra fasteignaverðs og hins vegar lægri fjármagnsgjalda samstæðunnar vegna hagstæðrar gengisþróunar, hækkandi álverðs og lægri verðbólgu. Rekstrarniðurstaða fyrir fjármagnsliði var jákvæð um 20.823 mkr sem er 1.790 mkr betri niðurstaða en áætlun gerði ráð fyrir.
Heildareignir samstæðunnar samkvæmt samanteknum efnahagsreikningi námu í árslok 535.478 mkr, heildarskuldir ásamt skuldbindingum voru 290.465 mkr og eigið fé var 245.013 mkr en þar af var hlutdeild meðeigenda 13.477 mkr.  Eiginfjárhlutfall samstæðunnar fer hækkandi og er nú 45,8% en var 42,6% árið áður.

Tækifæri til að bæta þjónustu við eldri borgara og lækka leikskólagjöld

Að sögn borgarstjóra gefur jákvæð afkoma borgarinnar færi á að bæta þjónustu borgarinnar enn frekar. Í borgarráði í dag voru lagðar fram tillögur borgarstjóra um lækkun leikskólagjalda og menningar- og heilsukort aldraðra sem mun nýtast Reykvíkingum sem hafa náð 67 ára aldri til að fá endurgjaldslausan aðgang að sundlaugum og menningarstofnunum sem reknar eru af Reykjavíkurborg. Verður viðkomandi sviðum falið að útfæra tillögurnar.

Fyrsta sinn sem bókhald er birt sem opin gögn

Hægt er að skoða ársreikninginn hér. Einnig hægt að skoða fjármálin eftir einstökum fagsviðum niður á einstaka birgja og bera saman við fyrri ár á Opin fjármál Reykjavíkurborgar

Á morgun, föstudaginn 28. apríl, mun Reykjavíkurborg síðan gefa út hrágögn ársreiknings á vefsvæðinu Opin gögn og verður það í fyrsta sinn á Íslandi sem opinber aðili gefur út bókhald sitt á opnu sniði.

Rekstur Reykjavíkurborgar skiptist í A-hluta og B-hluta. Til A-hluta telst starfsemi sem að hluta eða öllu leyti er fjármögnuð með skatttekjum. Um er að ræða Aðalsjóð, sem heldur utan um rekstur fagsviða, Eignasjóð og Bílastæðasjóð.

Til B-hluta teljast fjárhagslega sjálfstæð fyrirtæki sem að hálfu eða meirihluta eru í eigu borgarinnar, en rekstur þeirra er að stofni til fjármagnaður með þjónustutekjum. Fyrirtækin eru:  Orkuveita Reykjavíkur, Faxaflóahafnir sf., Félagsbústaðir hf., Íþrótta- og sýningahöllin hf., Malbikunarstöðin Höfði hf., Slökkvilið höfuðborgar¬svæðisins bs., Sorpa bs. og Strætó bs, auk Aflvaka hf og Jörundar ehf.

Ársreikningur Reykjavíkurborgar 2016 og skýrsla fjármálaskrifstofu með ársreikningi