Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur hefur fengið upplýsingar frá Veitum ohf. að niðurstöður rannsókna á hluta vatnssýna, sem fyrirtækið tók í borholum þess föstudaginn 2. febrúar sl., sýni of há gildi heildargerlafjölda við 22°C. Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur, Matvælastofnun og sóttvarnarlæknir telja neysluvatnið öruggt og ekki þurfi að grípa til aðgerða.
Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur hefur fengið upplýsingar frá Veitum ohf. að niðurstöður rannsókna á hluta vatnssýna, sem fyrirtækið tók í borholum þess föstudaginn 2. febrúar sl., sýni of há gildi heildargerlafjölda við 22°C. Athygli er vakin á því að ekki er um að ræða niðurstöður úr opinberu eftirliti heilbrigðiseftirlitsins með neysluvatni úr dreifikerfi Reykvíkinga. Sýnatakan er vegna innra eftirlits vatnsveitunnar með vatni í borholum á vatnsverndarsvæðinu í Heiðmörk og hluti af vöktun þess þegar hætta er á asahláku og miklum rigningum.
Það er niðurstaða Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur, Matvælastofnunar og sóttvarnarlæknis að þrátt fyrir þetta sé neysluvatnið öruggt og almenningur þurfi ekki að grípa til neinna sérstakra aðgerða vegna þess. Um er að ræða sérstakar veðuraðstæður sem hafa leitt til þess að vatnið í hluta af borholunum hefur ekki staðið ýtrustu gæðakröfur. Heilbrigðiseftirlitið tók í dag sýni á nokkrum stöðum úr dreifikerfinu til að kanna gæði neysluvatnsins þar og mun áfram fylgjast með gæðum þess.