Leiguíbúðir fyrir utangarðsfólk

Velferð

""
Velferðarsvið fer á þessu ári af stað með tveggja ára tilraunaverkefni sem byggir á hugmyndafræði „Housing First“ en í því felst að fjórar leiguíbúðir hjá Félagsbústöðum verða leigðar utangarðsfólki með sérstökum stuðningi.
Vettvangs- og ráðgjafateymi þjónustumiðstöðvar Miðborgar og Hlíða verður íbúum til stuðnings við að halda heimili. Þeir einstaklingar sem þarna munu búa fá einstaklingsmiðaðan stuðning sem getur falið í sér t.d. aðstoð við innkaup, þrif, skipulagningu heimilishalds og aðstoð við að halda almennar húsreglur í fjölbýli.

Í húsaleigusamningi verður m.a. kveðið á um að íbúar skuli greiða húsaleigu, þiggja aðstoð frá Vettvangs- og ráðgjafateymi og valdi ekki nágrönnum sínum ónæði.

Verkefnið fellur vel að stefnu Reykjavíkurborgar í málefnum utangarðsfólks 2008-2012 þar sem markmið eru meðal annars að koma í veg fyrir að fólk verði utangarðs til lengri tíma, tryggja því viðeigandi stuðning og auka lífsgæði.
 
Hugmyndafræði „Housing First“ á rætur sínar að rekja til Bandaríkjanna frá því um 1990. Hún byggir á því að öruggt húsnæði sé forsenda þess að hægt sé að vinna með vanda einstaklinga, svo sem vímuefnavanda.

Megináherslur hugmyndafræðinnar eru að veita fólki húsnæði strax án þess að gera kröfur um að fólk fari í vímuefnameðferð eða hafi lokið vímuefnameðferð. Einstaklingurinn fær þjónustu við hæfi sem byggir á hvatningu en ekki þvingun og sjónarmið skaðaminnkunar eru höfð að leiðarljósi.

Í nágrannlöndum þar sem „Housing First“ hugmyndafræðin hefur verið innleidd hefur heimilislausum fækkað um allt að fjórðung sbr. í Finnlandi.

Auk ofangreindra leiguíbúða eru ellefu íbúðir fyrir í esturbæ og fjögur smáhýsi þar sem íbúar búa með stuðningi frá starfsmönnum Vettvangs- og ráðgjafateymis.
 
Einnig eru rekin tvö herbergjasambýli fyrir utangarðsfólk, annars vegar heimili fyrir átta karla með vímuefnavanda og hins vegar heimili fyrir átta karla með tvígreiningu þ.e. vímuefnafíkn og geðfötlun. Þá er Gistiskýlið við Lindargötu fyrir 25 karla og Konukot fyrir átta konur.