Kríuhólmi búinn til

Umhverfi

""

Hólminn í Þorfinnstjörn hefur verið tekinn í gegn svo hann henti kríum betur til varps. 

Breytingar hafa verið gerðar á hólmanum í Þorfinnstjörn í Hljómskálagarðinum svo hann henti betur sem varpsvæði fyrir kríuna við Reykjavíkurtjörn. Krían lífgar mjög upp á Tjörnina en síðustu ár hefur verið nokkuð fjörugt kríuvarp í hólma sem útbúinn var í Fuglafriðlandinu í Vatnsmýri fyrir nokkrum árum.

Í framkvæmdum við kríuhólmann var gróður tekinn í burt en hann var kominn á kaf í hvönn og annan hávaxinn gróður sem krían forðast og mun færri kríur hafa verpt þar undanfarið en á árum áður. Nú er þar aðeins slétt möl sem er kjörlendi fyrir kríuna til að verpa í, en til þess velur hún sér helst snögga bletti.

Fuglavinir hafa lengi kallað eftir þessum aðgerðum og vonandi tekur krían nýja hólmanum opnum vængjum.

Kríuvarp er mjög æskilegt fyrir allt fuglalífið við Tjörnina því krían er öflug í því að fæla burt vargfugl eins og máva, hrafna og ránfugla.