Kolaportinu tryggt húsnæði til 10 ára

Framkvæmdir Mannlíf

""

Borgarstjóri og formaður borgarráðs undirrituðu í dag í Kolaportinu samning Reykjavíkurborgar við rekstraraðila þess um leigu 1. hæðar Tryggvagötu 19.  Samningurinn tryggir Kolaportinu húsnæðið til 10 ára eða út árið 2024. 

Rekstraraðili Kolaportsins, Portið ehf. mun framleigja húsnæðið undir markað með sama sniði og verið hefur undanfarin ár. Kolaportið opnaði á núverandi stað árið 1994, en það hafði áður verið í bílageymslu bílastæðasjóðs Reykjavíkur í húsi Seðlabankans þar sem það var fyrst opnað 8. apríl 1989.  Kolaportið er einn af þessum stöðum sem endurspeglar fjölbreytnina sem er að finna í Reykjavík og gefur borginni líf og lit. Það er vel sótt markaðstorg með fjölbreyttar vörur og fólk frá öllum heimshornum,  innfæddir borgarbúar, aðfluttir og ferðamenn. 
 
Reykjavíkurborg gerði nýlega leigusamning við Fasteignir ríkissjóðs eiganda húsnæðisins. Horfið er frá hugmyndum að byggja nýjan ramp upp á þak hússins til að nýta það sem bílastæði.  Þess í stað verður unnið að fegrun og betra aðgengi á norðurhlið byggingarinnar sem snýr að höfninni.  Áætlaður kostnaður við breytingarnar er um 50 milljónir króna.
 
Tengd frétt: