Hundrað viðburðir til að fagna 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna

Mannlíf Menning og listir

""

Reykjavíkurborg mun standa fyrir 100 viðburðum, smáum og stórum, í tilefni þess að öld er liðin frá því að konur, 40 ára og eldri, fengu kosningarétt og kjörgengi til Alþingis. Með hátíðahöldunum verður minnst þess árangurs sem náðst hefur í kvenréttindabaráttunni og hvatt til jafnréttis kynja á öllum sviðum.

Forsætisnefnd mun hafa umsjón með hátíðahöldunum sem hefjast formlega í dag með umfjöllun í borgarstjórn. Meðal viðburða á afmælisárinu er myndlistarsýningin Vatnsberinn FJALL+KONA, sem haldin verður í Ásmundarsafni í febrúar, hátíðardagskrá á alþjóðlegum baráttudegi kvenna 8. mars, ráðstefna um aðgerðir gegn heimilisofbeldi í apríl og samsýning 30 myndlistarkvenna í Listasafni Reykjavíkur í september, en þær konur sýndu fyrst saman á Kjarvalsstöðum á árinu 1985. Þá má nefna gönguferðir á kvennasöguslóðir og samstarf við ýmsa skipuleggjendur í grasrótarstarfi í borginni. Reykjavíkurborg tekur fagnandi á móti hugmyndum að viðburðum og tillögum að samstarfi í gegnum netfangið kosningar@reykjavik.is.

Viðburðir vegna kosningaafmælisins verða haldnir af öllum fagsviðum Reykjavíkurborgar og munu tengjast öðrum hátíðum á vegum borgarinnar, s.s. Menningarnótt, Fjölmenningardegi og Barnamenningarhátíð.

Stofnuð hefur verið Facebook-síða í tilefni afmælisins, sjá www.facebook.com/kosningaretturkvenna.

Þar má nálgast upplýsingar um alla viðburði og upplýsingar um stöðu kvenna á ýmsum tímum auk þess sem kona vikunnar er þar kynnt.