Gögn fylgja nú fundargerðum

Stjórnsýsla

""

Reykjavíkurborg hefur hafið birtingu gagna sem liggja fyrir á fundum ráða og nefnda og birtast þau með fundargerðum.  Stjórnkerfis- og lýðræðisráð var fyrsta ráð borgarinnar til að prófa lausnina og  fylgja nú öll gögn sem ráðið styðst við í ákvörðunum sínum með fundargerðinni.

Til stendur að öll ráð borgarinnar fylgi í kjölfarið  en markmiðið með þessum breytingum er að auka aðgengi   að öllum ákvörðunum sem teknar eru og þeim gögnum og upplýsingum sem ákvarðanir byggja á.. Öll bakgögn, svo sem greinargerðir og skýrslur, fylgja nú fundargerðinni sem gerir öllum kleift að kynna sér málin sem ráðin eru að sýsla með án þess að þurfa að biðja sérstaklega um gögnin frá viðkomandi ráði eða skjalaveri borgarinnar.  Þessi breyting mun ennfremur auðvelda fjölmiðlafólki að nálgast upplýsingar frá borginni auk þess sem hann auðveldar kjörnum fulltrúum mjög leit að upplýsingum þegar fram í sækir.

„Þetta nýja fundakerfi er mikil og langþráð breyting til batnaðar. Það eykur mjög gagnsæi og rekjanleika ákvarðana í stjórnsýslunni og auðveldar alla umsýslu innan borgarkerfisins með fundargögn. Hún verður mun skilvirkari og einfaldari. Ég hef sjálfur stundum þurft að senda fólki sem biður um gögn skjölin í tölvupósti en nú mun ég einfaldlega geta vísað fólki á þau beint á vefsíðu borgarinnar,“ segir Halldór Auðar Svansson, formaður stjórnkerfis- og lýðræðisráðs.

40 fundargerðir stjórnkerfis og lýðræðisráðs eru þegar komnar í birtingu  ásamt fylgigögnum á vef borgarinnar www.reykjavik.is en reiknað er með að öll helstu ráð borgarinnar hefji birtingu gagna á næstu vikum og mánuðum.  Lausnin sem notuð er er byggð á Drupal, open source vefkerfinu sem keyrir vef Reykjavíkurborgar.

Fundargerðir Stjórnkerfis og lýðræðisráðs.