Alþjóðlegur dagur fíflagangs (International Silly Walk Day) er á laugardag og eru Íslendingar með í fyrsta sinn. Fíflagangbrautarmerki verður sett upp í Vonarstræti af þessu tilefni og eru vegfarendur beðnir um að sýna tillitssemi og taka allri fífldirfsku með stóískri ró.
International Silly Walk Day er haldinn gleðilegur út um allan heim og hafa samtök Monty Python gengisins tengst þeim um víða veröld. Mottóið er að skemmta sér og öðrum með smá fíflagangi. Þó að dagurinn sé tileinkaður hinu fræga Silly Walk, Monty Python sem John Cleese gerði ódauðlegt um árið, þá er öllum útfærslum á fíflagangi tekið fagnandi.
Formlegur Fíflagangur hefst kl. 14.00 á laugardag í Vonarstræti og stígur Hrannar Jónsson, formaður Geðhjálpar fyrstu skrefin í fylgd landsþekktra gleðigjafa eins og Jakobs Frímanns Magnússonar, Eddu Björgvins, Björgvin Franz, Steinda Jr og fleiri.
Aðstandendur tileinka daginn öllum þeim sem berjast fyrir bættri geðheilsu. „Flest okkar reyna að tileinka sér allt það sem bætir, hressir og kætir okkar líf. Sumir eru á því að Fíflagangur sé eitt af því? En það sem nærir okkar gleði er jafn misjafnt og við erum mörg,” segir á Facebook síðu viðburðarins sem Kærleikur Ljúfur Winzemd skrifar undir, en hann er yfirsjálf Fíflagangs.
Vonarstræti verður opið fyrir umferð og gilda að sjálfsögðu allar almennar umferðarreglur á fíflagangbrautinni. Lögreglan gerir ekki athugasemdir við Fíflaganginn „svo framarlega sem hlutaðeigendur gæti að gildandi ákvæðum umferðarlaga í hvívetna“.